Telur engan vafa að brotið hafi verið á rétti Ólafs

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Golli

Tyge Trier, lögmaður Ólafs Ólafssonar, segir að í sínum huga sé „enginn vafi á að brotið hafi verið á rétti Ólafs til friðhelgi einkalífs og ætlaðs sakleysis“.

Mannréttindadómstóll Evrópu vísaði í dag frá kæru Ólafs vegna skýrslu rann­sókn­ar­nefnd­ar Alþing­is um aðkomu Hauck og Auf­hauser að einka­væðingu Búnaðarbank­ans. 

Dóm­stóll­inn féllst ekki á það að um­gjörð og málsmeðferð rann­sókn­ar­nefnd­ar­inn­ar gæti tal­ist hafa verið saka­málameðferð. Telji Ólaf­ur að vegið hafi verið að æru hans í skýrsl­unni þurfi að leysa úr því fyr­ir ís­lensk­um dóm­stól­um. 

Í yfirlýsingu frá Ólafi er haft eftir Trier, sem er danskur lögmaður sérfróður um mannréttindamál og sótti málið fyrir hönd Ólafs, að niðurstaðan, sem er tvíþætt, sé vonbrigði. 

Annars vegar sé því vísað frá að rannsókn og niðurstaða rannsóknarnefndarinnar hafi jafngilt sakamálarannsókn. Á hinn bóginn, vegna tæknilegra lagamála, fékkst ekki niðurstaða varðandi það hvort við málsmeðferðina á árunum 2016 og 2017 hafi frá upphafi verið gert ráð fyrir sekt Ólafs eða gætt að friðhelgi einkalífs hans og orðspori.

„Ég dreg þá ályktun að líta megi á ákvörðunina, sem einungis var tekin af þremur dómurum, sem aðvörun til íslenskra stjórnvalda um að til staðar hafi verið alvarleg álitamál hvað mannréttindasáttmálann varðar, en einnig að til staðar hafi verið lagaleg úrræði sem ekki var látið á reyna. Kvörtunin er því ekki tekin til meðferðar. Í mínum huga er enginn vafi á að brotið hafi verið á rétti Ólafs til friðhelgi einkalífs og ætlaðs sakleysis,“ er haft eftir Tyge Trier. 

Áhugi fyrir frekari málarekstri lítill 

„Frá mínum sjónarhóli og með minn bakgrunn sé ég alvarleg álitamál tengd ákvæðum 6.2 og 8 í mannréttindasáttmálanum og einnig að efast megi um hvort raunhæfar leiðir hafi verið til staðar fyrir íslenskum dómstólum. Dómararnir í Strassborg hafa nú – byggt á merkilegum yfirlýsingum lögmanna íslenska ríkisins – staðfest að þær leiðir séu fyrir hendi fyrir íslenskum dómstólum. Það er því nokkuð sem við þurfum að meta í framhaldinu. Mikilvægt er að Mannréttindadómstóllinn hefur í dag vakið athygli á þeim brotalömum sem Ólafur sýndi fram á og byggt á nærri 30 ára reynslu minni á þessu sviði er mitt mat að brotið hafi verið á rétti Ólafs til einkalífs og til að vera talinn saklaus,“ segir Trier. 

Að fenginni niðurstöðunni liggur fyrir Ólafi að meta hvort hann kýs að höfða mál á hendur ríkinu fyrir íslenskum dómstólum. Um það segir Ólafur: „Ég mun meta þessa niðurstöðu, en áhugi minn á að reka mál fyrir íslenskum dómstólum er lítill að fenginni reynslu og tímanum sjálfsagt betur varið til uppbyggilegri mála,“ segir Ólafur.

mbl.is

Bloggað um fréttina