„Ákveðin viðurkenning“ felist í spurningum MDE

Ólafur Ólafsson mætir hér á fund viðskiptanefndar Alþingis árið 2017.
Ólafur Ólafsson mætir hér á fund viðskiptanefndar Alþingis árið 2017. mbl.is/Golli

Ólafur Ólafsson segir að vinna og birting á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (RNA) hafi vegið alvarlega að orðspori sínu og æru án þess að hann hafi haft nokkurt tækifæri til að koma við vörnum eða nýta þau réttindi sem talið er sjálfsagt að fólk, sem borið er þungum sökum af hálfu stjórnvalda, njóti.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ólafi, en í gær var greint frá því að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði kallað eftir svörum frá íslenskum stjórnvöldum í tengslum við málsmeðferð RNA við rannsókn og gerð skýrslu um þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans 2003. Þá seldi íslenska ríkið 48,5% hlut sinn í bankanum til S-hópsins svokallaða, sem Ólafur var helst í forsvari fyrir.

Í skýrslu RNA kom fram að Hauck & Aufhauser hefði í reynd aldrei verið fjárfestir í Búnaðarbankanum, þvert á yfirlýsingar S-hópsins. Var það afdráttarlaus niðurstaða nefndarinnar að stjórnvöld hefðu verið skipulega blekkt við sölu bankans um það atriði.

Ólafur beindi kæru til MDE eftir að skýrslan kom út árið 2017 og færði þar rök fyrir því að umgjörð og málsmeðferð RNA hefði í raun falið í sér sakamál á hendur honum og jafngilt refsingu án þess að hann hafi notið nokkurra þeirra réttinda sem fólk sem borið er sökum á að njóta og er grundvöllur réttarríkisins.

„Einhliða árás á mig“

„Þótt skýrslan hafi verið skrifuð undir því yfirskyni að varpa ljósi á 15 ára gamalt mál fólust í henni alvarlegar og einhliða ásakanir á mig sem í engu eru réttlætanlegar. Þessi málsmeðferð jafngildir í raun refsingu án dóms og laga og gengur þvert á rétt hvers og eins til að teljast saklaus uns sekt er sönnuð. Það felst ákveðin viðurkenning á þessum sjónarmiðum í því að Mannréttindadómstóllinn taki málið upp og krefji ríkið svara um málsmeðferðina.

Í þessari einhliða árás á mig var ekkert tillit tekið til þess að ríkið tók á sínum tíma hæsta tilboði í opnu söluferli, kaupverðið var greitt að fullu og engum blekkingum var beitt, enda var tilboð S-hópsins metið hagstæðast jafnvel án aðkomu erlends banka líkt og lesa má í fundargerðum Framkvæmdanefndar um einkavæðingu,“ er haft eftir Ólafi í fréttatilkynningu.

S-hópurinn keypti hlut ríkisins í Búnaðarbankanum við einkavæðingu hans árið …
S-hópurinn keypti hlut ríkisins í Búnaðarbankanum við einkavæðingu hans árið 2003. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Spurningarnar sem Mannréttindadómstóll Evrópu sendi stjórnvöldum lúta meðal annars að því hvort líta beri á rannsókn RNA sem sakamálarannsókn og sé svo, hvort Ólafur hafi þá notið viðeigandi réttarverndar og hafi mögulega verið gert að svara spurningum án þess að gætt hafi verið að rétti hans til að svara ekki spurningum eða fella ekki á sig sakir. Þá er einnig spurt hvort gætt hafi verið að þeirri meginreglu að menn skuli teljast saklausir uns sekt þeirra er sönnuð.

Eins er spurt hvort réttur Ólafs til friðhelgi einkalífs hafi verið skertur í skilningi 8. greinar sáttmálans og hvort honum hafi staðið til boða fullnægjandi innlend úrræði þar sem hann hefði getað leitað réttar síns samkvæmt 13. grein. Snerta spurningar dómstólsins því ekki einungis málsmeðferð stjórnvalda samkvæmt 6. grein heldur einnig 8. og 13. grein.

Þá er íslenska ríkinu boðið að leggja fram enska þýðingu á niðurstöðum RNA, endurrit á ensku á ummælum fulltrúa RNA sem varða Ólaf og voru viðhöfð í sjónvarpi og á blaðamannafundi sem haldinn var til kynningar á niðurstöðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert