Bætur vegna „ungbarnahristingsmáls“ lækkaðar

Barnavernd Reykjavíkur.
Barnavernd Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Landsréttur lækkaði í dag miskabætur sem Reykjavíkurborg var gert að greiða fjögurra manna fjölskyldu vegna aðgerða Barnaverndar Reykjavíkur um helming. Úr tveimur milljónum á mann í eina. Dómurinn var kveðinn upp nú síðdegis.

Málið er nokkuð umfangsmikið en varðar aðgerðir sem barnaverndarnefnd Reykjavíkur greip til í kjölfar gruns um að foreldrarnir hefðu hrist níu mánaða gamalt barn þeirra með alvarlegum afleiðingum.

Læknir kom fyrst ábendingu til barnaverndaryfirvalda vegna innvortis áverka en þá hóf stofnunin rannsókn og vistaði barnið utan heimilis. Fyrst í þrjár vikur á vistheimili en síðan á heimili móður og föðurforeldra næstu mánuði. Vistun utan heimilis stóð frá júní- til októbermánaðar. Nokkrum mánuðum eftir vistunina var rannsókn lögreglu felld niður þar sem ekki þótti grundvöllur til að halda henni áfram.

Vistun lögmæt í upphafi

Landsréttur taldi þriggja vikna dvölina á vistheimili í upphafi hafa verið lögmæta ráðstöfun. Þar var meðalhófs gætt að því leyti að foreldrum var frjálst að vera með barninu á vistheimilinu. Hins vegar taldi rétturinn það ekki hafa verið lögmætt að meina barninu að snúa aftur á heimili foreldra eftir það. Vistun utan heimilis hefði þess vegna staðið lengur en nauðsyn krafði.

Aðgerðirnar hafi því farið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslunnar og takmarkað stjórnarskrárvarinn rétt fjölskyldunnar til friðhelgi einkalífs. Voru miskabæturnar metnar hæfilegar ein milljón króna á hvern í fjölskyldunni. Íslenska ríkið hafði áður greitt fjölskyldunni bætur vegna ólögmætra aðgerða lögreglu og Barnaverndarstofu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert