„Við erum ekki að fara að ná í fólkið“

Þrátt fyrir að nokkrar vikur séu síðan lögregluyfirvöld og björgunarsveitir fóru að vara fólk við því að ganga á hrauninu í Geldingadölum ber enn á því að fólk sé að ganga á hraunbreiðunni. Á vefmyndavél mbl.is mátti sjá nokkra einstaklinga á gangi yfir hraunbreiðuna í Nátthaga um klukkan 16 í dag.

„Fólk labbar ekki þarna á meðan við erum á svæðinu, við komum ekki á svæðið fyrr en klukkan sex á kvöldin,“ segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, spurður hvort þetta sé algengt meðal gesta.

Hvort um sé að ræða Íslendinga eða erlenda ferðamenn segir Bogi að erfitt sé að fullyrða, en líklega séu þetta ferðamenn.

„Það er bara meira af ferðamönnum á svæðinu heldur en Íslendingum.“

Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar.
Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Ekki víst að hægt sé að bjarga fólki

Hvort hægt sé að bjarga fólki, fari allt á versta veg á göngu þeirra yfir hraunbreiðuna, segir Bogi: „Við förum ekki þarna inn á, það er bara þannig. Ég á fjölskyldu og ég mun ekki fara þarna yfir.“

Bogi segist þá ekki viss um að fólk geri sér grein fyrir því að sennilegast væri ekkert hægt að gera, verði slys á hraunbreiðunni.

„Þetta er bara „kommon sens“, við erum ekki að fara að ná í fólkið. Það verður bara að geta skriðið til baka og ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir þessu.“

Bogi segir einnig að ekki sé hægt að eiga við það að fólk ætli sér yfir hraunið. Lögreglan hafi séð til tveggja manna á gangi um hraunið fyrir nokkrum dögum, þeir hafi snúið við þegar þeir sáu til lögreglunnar og einfaldlega beðið þar til lögreglan fór af vettvangi.

„Að mínu mati er þetta fínt til þess að horfa á, en hvers virði er það að sjá ofan í gíginn ef það drepur þig.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert