Arnar kominn í mark

Arnar Helgi Lárusson kom í mark um sjöleytið í dag.
Arnar Helgi Lárusson kom í mark um sjöleytið í dag. Ljósmynd/Aðsend

Arnar Helgi Lárusson kom í mark á Selfossi um sjöleytið í dag eftir 400 kílómetra hjólaferðalag sem hann lagði í klukkan fjögur í gær frá Höfn í Hornafirði. 

Arnar einsetti sér að hjóla 400 kílómetra á innan við sólarhring með höndunum einum saman, til þess að vekja athygli á hreyfingu fyrir hreyfihamlaða og safna fyrir fjórum sérútbúnum hjólum fyrir hreyfihamlaða.

Hann var allan tímann studdur af glæsilegum hópi vina og vandamanna en eiginkona hans, Sóley Bára Garðarsdóttir, hjólaði með honum inn í nóttina, þegar hann var kominn í Vík í Mýrdal. Fleiri bættust við með þeim þegar nær dró Selfossi og endaði ferðin með lögreglufylgd síðustu kílómetrana.

Arnar lenti í mótorhjólaslysi í september árið 2002, þá 26 ára gamall, þar sem hann lamaðist frá brjósti og niður. Hann hef­ur ekki látið það hindra sig í að hreyfa sig og stunda íþrótt­ir en hann hef­ur stundað lyft­ing­ar, hjóla­stóla-race og handa­hjól­reiðar og er í dag formaður SEM-sam­tak­anna.

mbl.is