Bifreið í björtu báli

Það skíðlogaði í þessari bifreið á athafnasvæði sorpeyðingarstöðvarinnar.
Það skíðlogaði í þessari bifreið á athafnasvæði sorpeyðingarstöðvarinnar. Ljósmynd/Slökkviliðið í Vestmannaeyjum

Slökkviliðið í Vestmannaeyjum var ræst út rúmlega níu í gærkvöldi þegar tilkynnt var um mikinn reyk sem kom frá athafnasvæði sorpeyðingarstöðvarinnar, eins og greint var frá á mbl.is í gærkvöldi. 

Slökkviliðið greinir frá því í færslu á Facebook núna í morgun að þegar það bar að garði í gærkvöldi hefði eldur reynst vera á tveimur stöðum á svæðinu, annars vegar í bíl sem stóð einn á miðju plani á neðra geymslusvæði og hins vegar í papparusli í nokkurra metra fjarlægð frá bílnum.

Slökkviliðið segir að þarna hefði betur farið en á horfði í fyrstu. Þar bjargaði miklu að bifreiðin stóð fjarri öðru brennanlegu efni og því lítil hætta á að eldurinn næði að breiða úr sér.

Slökkvistarf gekk hratt og vel og er lögregla með málið til rannsóknar.

mbl.is