Sýknudómur yfir lögreglumanni staðfestur í Landsrétti

mbl.is/Eggert

Landsréttur hefur staðfest sýknudóm yfir lögreglumanni sem var gefið að sök stórfelld vanræksla eða hirðuleysi í opinberu starfi.

Atvikið varðaði húsleit þar sem hann átti að hafa látið hjá líða að leggja hald á kannabisblandaðan vökva. Einnig var hann sakaður um að hafa ekki sinnt skyldum sínum sem lögreglumaður til að framkvæma frekari leit að ávana- og fíkniefnum í húsnæðinu og leggja hald á tiltekið magn kannabisefna og kannabisblandaðs vökva.

Í dómi Landsréttar kom fram að fyrir brot gegn 141. gr. almennra hegningarlaga yrði ekki refsað nema það væri framið af ásetningi og ákvæðinu yrði ekki beitt nema um væri að ræða gróf eða ítrekuð tilvik vanrækslu eða hirðuleysis.

Sýknaður af því að hafa af ásetningi látið hjá líða að leggja hald á efni

Við mat á því hvort lögreglumaðurinn hefði látið hjá líða að leggja hald á kannabisefnin var í dómi Landsréttar meðal annars litið til þessað ekkert væri fram komið í málinu um að hann hefði haft ástæðu til að líta fram hjá fíkniefnum á staðnum auk þess sem sannað væri að hann hefði framkvæmt frekari leit í húsnæðinu og utandyra. Jafnframt að aðstæður til leitar hefðu verið erfiðar.

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Þorsteinn

Þá var ekki talið sannað að maðurinn hefði séð, hlotið að vera ljóst eða látið sér í léttu rúmi liggja hvort í tiltekinni fötu hefðu verið kannabisefni.

Að þessu og öðru því virtu sem kom fram í dómi Landsréttar var lögreglumaðurinn sýknaður af því að hafa af ásetningi látið hjá líða að leggja hald á kannabisefni, önnur en vökva, við húsleitina.

Engin stórfelld vanræksla eða hirðuleysi

Í dómi Landsréttar kom fram að sannað væri í málinu að hann hefði látið hjá líða að haldleggja 300-500 millilítra af vökva sem til hefði staðið að búa til CBD-olíu úr og að um fíkniefni hefði verið að ræða í skilningi laga nr. 64/1974 um ávana-og fíkniefni.

Hins vegar var ekki talið að sú háttsemi mannsins hefði falið í sér stórfellda vanrækslu eða hirðuleysi í skilningi 1. mgr. 141. gr. almennra hegningarlaga í ljósi þess hve vökvamagnið var lítið og hlutfall tetrahýdrókannabínóls í því lágt.

Var hinn áfrýjaði dómur því staðfestur um sýknu lögreglumannsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert