Sex hlutu styrk úr verðlaunasjóði Guðmundar Bjarnasonar

Mynd af verðlaunahöfunum ásamt stjórn sjóðsins, rektor Háskóla Íslands og …
Mynd af verðlaunahöfunum ásamt stjórn sjóðsins, rektor Háskóla Íslands og forseta verkfræði- og náttúruvísindasviðs skólans. Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Sex nemendur sem útskrifuðust úr grunnnámi með BS-gráðu í eðlisfræði og efnafræði við Háskóla Íslands síðastliðið skólaár hljóta verðlaun úr Verðlaunasjóði Guðmundar P. Bjarnasonar frá Sýruparti á Akranesi í ár. Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á fimmtudag og nemur verðlaunaféð samtals þremur milljónum króna. 

Katrín Agla Tómasdóttir og Þorsteinn Elí Gíslason hlutu verðlaun fyrir ágætiseinkunn í eðlisfræði. Alec Elías Sigurðarson, Hafdís Haraldsdóttir, Viktor Ellingsson og Þórir Steinn Valgeirsson hlutu verðlaun fyrir ágætiseinkunn í efnafræði. 

Verðlaunasjóður Guðmundar P. Bjarnasonar frá Sýruparti á Akranesi var stofnaður árið 2000 með rausnarlegri gjöf Guðmundar, sem hann bætti síðar tvívegis í. Hann fæddist á Sýruparti á Akranesi 1909 og bjó um árabil á Höfða, dvalarheimili aldraðra á Akranesi. Guðmundur P. Bjarnason lést í febrúarmánuði 2006 í hárri elli. Hann átti þess ekki kost að stunda háskólanám en starfaði sem netagerðarmaður og fiskmatsmaður á Akranesi auk þess að stunda útgerð í félagi við bróður sinn. Guðmundur var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Kára árið 1922 og Taflfélags Akraness árið 1933.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert