108 börn í hoppukastala þegar hann fauk upp í loft

mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Hópslys varð á Akureyri fyrir skömmu þar sem ríflega hundrað börn voru um borð í hoppukastala þegar hann fauk upp í loft nokkra metra frá jörðu. Var hann staðsettur við Skautahöllina á Akureyri.

Hoppukastalinn kallast skrímslið og er hann staddur á Akureyri um þessar mundir. hann er 1.600 fermetrar að flatarmáli, stærsti hoppukastali í heimi. Búið er að virkja hópslysaáætlun í Eyjafirði svo allir viðbragðsaðilar eru að störfum.

Þetta staðfesti Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna á svæðinu, í samtali við mbl.is. 

Þó 108 börn hafi verið um borð slösuðust ekki nema 10 og þá ekki alvarlega, að sögn Jónasar. Sjö hafa verið flutt upp á sjúkrahús til nánari skoðunar.

N1 mótið í knattspyrnu er í gangi á Akureyri og …
N1 mótið í knattspyrnu er í gangi á Akureyri og voru flest börnin í hoppukastalanum þátttakendur á því móti. mb.is/ Margrét Þóra Þórsdóttir

Varðstjóri slökkviliðsins á Akureyri segir mikla ringulreið hafi gripið um sig og aðgerðir væru enn í fullum gangi á svæðinu.

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur gefið út tilkynningu á Facebook-síðu sinni.

Rauði krossinn er á staðnum og sinnir verkefnum í fjöldahjálparmiðstöð að sögn Gunnlaugs Braga Björnssonar, upplýsingafulltrúa Rauða krossins.

Verkefni þeirra hverfast aðallega um að veita fyrstu hjálp og sálrænan stuðning þeim sem þurfa. Hann segist ekkert vita nánar um líðan hinna slösuðu, umfram það sem greint hefur verið frá áður um að slys séu ekki talin meiriháttar. 

Rauði krossinn veitti fólki áfallahjálp.
Rauði krossinn veitti fólki áfallahjálp. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Óvænt vindhviða virðist hafa valdið því að hoppukastalinn tók á loft, að sögn Páleyjar Borgþórsdóttur, lögreglustjóra á Norðurlandi eystra. Á vefsíðu Perlunnar, sem er umsjónaraðili hoppukastalans, er sérstaklega tekið fram að hoppukastalinn sé ekki starfræktur í miklum vindi eða úrkomu.  

Samkvæmt viðbragðsaðilum rifnuðu festingarnar upp. Náðist að koma hoppukastalanum svo niður til jarðar og allt loft var tekið úr honum. Hófst þá leit að börnum í loftlausum kastalanum. 

mbl.is