Enn í haldi lögreglu: „Hann byrjaði þetta“

Lögreglan stöðvaði loks manninn á Sæbraut í gær, eftir að …
Lögreglan stöðvaði loks manninn á Sæbraut í gær, eftir að hann hafði keyrt um Vesturbæinn þveran og endilangan. Ljósmynd/Aðsend

Maðurinn sem ók á ógnarhraða og gegn akstursstefnu miðsvæðis í Reykjavík í gær er enn í haldi lögreglu. Hann hefur ekki enn verið yfirheyrður en það verður þó gert í seinna í dag. Verið er að bíða eftir að renni af honum. 

Þetta segir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn við mbl.is. 

Ekki hefur enn verið ákveðið hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir manninum, sú ákvörðun er til skoðunar ákærusviðs, segir Jóhann. 

Jóhann Karl Þórisson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Jóhann Karl Þórisson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er hægt að ákæra fyrir fjöldann allan af umferðarlagabrotum,“ segir Jóhann spurður um hvaða brot maðurinn væri grunaður um. 

Lögregla veitti manninum eftirför um götur Reykjavíkur í gær og náðist myndband af glannalegu aksturslagi hans. 

Enn fremur segir Jóhann að lögregla hafi ekki veitt manninum eftirför vegna neins annars en aksturslags hans, þannig hafi lögregla ekki ætlað að handtaka hann vegna einhvers annars en hann reynt að stinga af.

„Hann byrjaði þetta,“ segir Jóhann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert