Finnist vinningshafi ekki fara 54,5 milljónirnar til eignarhaldsfélaga

Vinn­ings­hafi sem fékk fjór­fald­an pott, rúm­lega 54,5 millj­ón­ir króna, í lottó 12. júní hefur enn ekki gefið sig fram við Íslenska getspá. Finnist hann ekki innan við ári eftir að miðinn var keyptur rennur vinningsfjárhæðin til eignarhaldsfélaga.

„Hann er enn ekki fundinn. Það er alveg svolítið sérstakt, því mjög oft sem við sendum út tilkynningu um að við séum að leita að vinningshafa þá fara allir að skoða miðana sína og við náum oft að finna þá samdægurs,“ segir talsmaður Íslenskrar getspár. „Við höfum alveg fengið sendar inn fyrirspurnir um hvaða dag vinningsmiðar hafa verið keyptir og klukkan hvað og svoleiðis. Fólk veit að það keypti miða en finnur hann kannski ekki akkúrat á þessari stundu.“

Miðinn var keypt­ur á N1 Há­holti í Mos­fells­bæ og biðlar Íslensk get­spá til allra þeirra sem keyptu sér miða hjá N1 Há­holti fyr­ir út­drátt­inn 12. júní að renna vel yfir miðana og töl­urn­ar í von um að stóri vinn­ing­ur­inn kom­ist sem fyrst í rétt­ar hend­ur.

Mikilvægt að fólk passi upp á miðann sinn

Talsmaður Íslenskrar getspár segir mjög mikilvægt að fólk passi upp á miðann sinn enda séu vinningar ekki greiddir út nema við afhendingu á frumriti miðans.

„Ég þarf alltaf að fá miðann í hendurnar. Ég get sagt þér það að miðinn var seldur þennan dag og auðvitað getum við séð klukkan hvað miðinn var keyptur en við gefum það samt ekki upp. Þótt þú værir með kortafærsluna upp á mínútu og við færum yfir myndavélakerfið í sjoppunni og allt saman þá yrðum við samt að fá miðann. Það er enginn vinningur greiddur út nema við afhendingu á frumriti miðans.“

Hvað gildir miðinn í langan tíma?

„Miðinn gildir í heilt ár og vinningshafi hefur þann tíma til að sækja vinninginn. Eftir þann tíma fyrnist hann. Það sama gildir um alla vinningsmiða, hvort sem vinningurinn er smár eða stór.“

Inntur eftir því segir talsmaður Íslenskrar getspár vinningsfjárhæðina renna til eignarhaldsfélaga ef vinningshafi finnst ekki innan árs eftir að miðinn var keyptur. Eignarhaldsfélögin eru Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Öryrkjabandalag Íslands. 

mbl.is