Kórónuveirusmit greindist á Jómfrúnni

Ljósmynd/Jómfrúin

Kórónuveirusmit greindist í gær hjá starfsmanni veitingastaðarins Jómfrúarinnar sem var síðast í vinnu á mánudag. 24 starfsmenn verða sendir í skimun vegna þessa en ekki er útlit fyrir að neinir gestir muni þurfa að fara í skimun eða sæta sóttkvíar vegna smitsins.

Nokkur kórónuveirusmit hafa greinst innanlands undanfarið, sjö innanlandssmit greindust í gær og tíu daginn þar á undan. Öll smitin greindust hjá bólusettum og voru níu af sautján smituðum utan sóttkvíar við greiningu. Sóttvarnalæknir hefur sagt það ekki eiga að koma á óvart að einhver smit komi upp hjá bólusettum þrátt fyrir að bólusetning veiti góða vörn, sérstaklega fyrir alvarlegum veikindum.

„Eins og viðbúið er miðað við aðstæðurnar í samfélaginu þá kom upp smit hjá einum starfsmanni á Jómfrúnni. Það kom í ljós í gær og það eru tvær vaktir á Jómfrúnni sem þurfa að fara í skimun en okkur sýnist að afleiðingarnar fyrir reksturinn þurfi ekki að vera meiri en svo. Hér eru auðvitað allir bólusettir,“ segir Jakob E. Jakobsson, eigandi og framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar.

Jakob E. Jakobsson, eigandi og framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar.
Jakob E. Jakobsson, eigandi og framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Enginn með einkenni

Jómfrúin verður áfram opin þar sem starfsmenn sem höfðu ekki unnið með hinum smitaða geta starfað í stað þeirra sem þurfa að fara í skimun. 

„Enginn kennir sér neins meins eða finnur til nokkurra einkenna,“ segir Jakob um starfsmenn sem voru á vaktinni með hinum smitaða á laugardag og/eða mánudag og þurfa þar af leiðandi að fara í skimun. 

Þurfa einhverjir gestir að fara í skimun? 

„Eftir mikið og náið samtal við rakningarteymið þá lítur út fyrir það að þetta hafi ekki áhrif á þá sem hafa heimsótt okkur,“ segir Jakob.

mbl.is