Margir ruglast á hraðprófssala og upplýsingavef

Vefsíðan covidtest.is er vinstra megin á myndinni en covid.is hægra …
Vefsíðan covidtest.is er vinstra megin á myndinni en covid.is hægra megin. Skjáskot

Vefsíðan covidtest.is býður upp á hraðpróf til greiningar kórónuveirunnar en vefsíðan þeirra er um margt lík covid.is, upplýsingavef almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Appelsínugulur og blár eru einkennislitir síðunnar en svipaðir litir eru notaðir í kynningarefni almannavarna um faraldurinn.

Hafa fengið fjölda fyrirspurna um tengsl

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, segir stofnunina hafa fengið fjölda fyrirspurna um tengingu milli vefjanna tveggja. „Við erum búin að óska eftir að þau breyti þessu. Þótt almannavarnir geti ekki eignað sér lit er greinilega verið að reyna að ná hugrenningatengslum hér á milli,“ segir Hjördís.

Hún segir bagalegt að fólk ruglist á einkafyrirtæki og almannavörnum: „Covid.is er á vegum yfirvalda og vefurinn er samstarf milli embættis ríkislögreglustjóra og embættis landlæknis. Þess vegna viljum við halda því þannig að fólk geti treyst því að þær upplýsingar sem birtist auðkenndar með þessum litum komi frá yfirvöldum.“

Ekki ætlunin að fólk rugli síðunum saman

Níels Rafn Guðmundsson er framkvæmdastjóri covidtest.is en segir það ekki hafa verið ætlun þeirra að fólk myndi ruglast á þeim og almannavörnum. „Fyrir okkur er þetta bara svona Covid-litur, eftir tilmæli frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er nú til skoðunar að breyta þessu. Við áttum nú ekki von á að þetta yrði eitthvert atriði,“ segir Níels.

Hann segir reksturinn ganga vel og mikla eftirspurn eftir prófum: „Nú er mikill fjöldi að koma hingað til landsins sem þarf að sýna fram á neikvætt próf. Ég held að það sé nauðsynlegt að það séu nokkrir aðilar að sinna þessari þjónustu.“

mbl.is
Loka