„Með ljótari sárum sem maður hefur séð“

Myndin umtalaða. Jón Stefánsson situr við borðið og sjá má …
Myndin umtalaða. Jón Stefánsson situr við borðið og sjá má manninn sem slasaðist. Ljósmynd/Aðsend

Jón Stefánsson, sem varð vitni að slagsmálum fyrir utan Bláu könnuna í miðbæ Akureyrar í gærkvöldi, segir að honum hafi sýnst þar tveir hópar vera að slást frekar en að ráðist væri að einum manni.

Einn slasaðist í slagsmálunum þegar maður stökk á hann og hann fór í gegnum rúðu staðarins. Hann hlaut alvarleg meiðsli á efri handlegg og mikið var um blóð á vettvangi. Fimm gistu fangageymslur vegna málsins en lögregla sagði í samtali við mbl.is að þeim yrði líklega sleppt eftir skýrslutökur.

Það hefur enginn þorað að koma honum til varnar?

„Jú, þeir voru þarna nokkrir, þetta voru eiginlega tveir hópar sem voru að slást.

Allir farnir nema hann

Mynd sem birt var á mbl.is í gær af Jóni hefur vakið nokkra athygli netverja, þá helst fyrir þær sakir að Jón sat þar rólegur með bjór.  

Hann segir marga hafa orðið vitni að atburðinum og sumir hafi verið skelkaðir.

„Ég var hinn rólegasti og sat þarna einn orðinn,“ segir Jón.

Voru allir hinir farnir?

„Já, það má segja það. Það þorði enginn að sitja þarna nálægt, nema ég. Ég er náttúrlega gamall sjóari.“

Spurður hvernig honum þyki að vera orðinn frægur á netinu segist hann halda að það sé ekki spennandi, allavega ekki til lengdar. Hann segist sjálfur ekki vera með twitterreikning.

Hann bætir við: „Vonandi nær maðurinn sér, þetta var mjög slæmt að sjá. Ég hef nú séð ýmiss konar áverka, hef verið í slökkviliðinu líka og flugbjörgunarsveitinni og hef séð ýmislegt. Þetta var með ljótari sárum sem maður hefur séð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert