Þeir sem fengu Janssen líklega bólusettir aftur

Þau sem fengu bóluefni Janssen gegn Covid-19, sem og viðkvæmir …
Þau sem fengu bóluefni Janssen gegn Covid-19, sem og viðkvæmir hópar, verða líklega bólusett aftur. AFP

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að líklega verði ráðist í að gefa þeim sem voru bólusettir með bóluefni Janssen gegn Covid-19, sem og fólki með undirliggjandi sjúkdóma og sem hefur kannski ekki svarað bóluefninu nægilega vel, viðbótarskammt af bóluefni gegn Covid-19.

Því hafi verið ákveðið að halda eftir dágóðum skammti af bóluefni, en fram hefur komið að Íslendingar muni gefa umframskammta af bóluefni til fátækari ríkja.

Þórólfur segir að sennilega verði farið af stað með viðbótarbólusetningar þegar heilsugæslan verður komin aftur af stað eftir sumarfrí.

Spurður um valkvæð Covid-próf á landamærunum segir Þórólfur að fólk geti nú valið að fara í próf á landamærunum sjálfviljugt. Það hafi ekki verið þannig áður en verið sé að breyta því. 

mbl.is