Mikil vonbrigði en ekkert annað í stöðunni

Haffi Haff og Svala Björgvins voru meðal þeirra listamanna sem …
Haffi Haff og Svala Björgvins voru meðal þeirra listamanna sem stigu á svið á Húsavík um helgina. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Nú hefur öllum tónlistarhátíðum um verslunarmannahelgina verið aflýst eða frestað eftir að stjórnvöld hertu á ný sóttvarnaaðgerðir innanlands til þess að sporna við dreifingu Delta-afbrigðsins svokallaða. Þetta eru mikil vonbrigði fyrir landann og skipuleggjendur hátíðarhaldanna, en eins og margir héldu þeir að nú loksins værum við komin yfir þennan „kórónuhól“. Enn er óljóst hver örlög Þjóðhátíðar í Eyjum eru en forsvarsmenn hennar segja að henni verði frestað til seinni tíma. Kotmóti Hvítasunnukirkjunnar hefur verið aflýst og einnig er búið að aflýsa Síldarævintýrinu á Siglufirði.

Ásgeir Guðmundsson, framkvæmdastjóri Innipúkans, segir mikil vonbrigði að hafa þurft að aflýsa hátíðinni annað árið í röð, en Innipúkinn er tónlistarhátíð haldin í Reykjavík á hverju ári. „Maður tekur þetta á kassann eins og allt annað.“

Ásgeir bætir við að fólk fái endurgreitt sem hafði borgað miðana. „Það fá allir fjórtán daga til þess að sækja sína endurgreiðslu sem allir eiga rétt á og afgangurinn fer til þeirra listamanna sem áttu að koma fram á hátíðinni,“ segir hann.

Ásgeir segir það óljóst hvert tekjutapið verður en síðustu daga hafa þeir reynt að takmarka skaðann.

„Innipúkinn er ekki hagnaðardrifin hátíð. Við reynum að hafa kostnaðinn lítinn og eyðum í raun ekki stórum fjárhæðum þannig að þetta er ekki endilega mikið högg á okkur skipuleggjendur. Við finnum mikið til með tónlistarfólkinu okkar sem missir að einhverju leyti sitt lifibrauð aftur.“

Taka þetta á bringuna

Davíð Rúnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Viðburðastofu Norðurlands, tekur í sama streng og Ásgeir og segir mikil vonbrigði að það hafi þurft að aflýsa bæjarhátíð Akureyringa; Einni með öllu.

„Ég held að allir skilji þetta vel. Það sýnist okkur og þau skilaboð sem við höfum fengið er að fólk telur þetta mjög skynsamlegt. Það er í rauninni ekkert annað í stöðunni og ekkert sem við getum gert nema að brosa og taka þetta á bringuna,“ segir hann.

Davíð segir að þótt hátíðinni hafi verið aflýst búist hann við að margir sæki bæinn heim vegna blíðviðris sem á að vera um verslunarmannahelgina á Akureyri, samkvæmt veðurspá. „Sem betur fer er góð veðurspá og við gerum ráð fyrir að fólk komi samt.“ Davíð segir að auðvitað hafi þetta mikil áhrif, sérstaklega á þá tónlistarmenn sem áttu að stíga á stokk um helgina. „Þetta er mikið tekjutap fyrir alla, það er enginn að fá neitt því miður, það fær enginn tónlistarmaður borgað.“

Útihátíðin Bræðslan var haldin með pompi og prakt á Borgarfirði eystri um helgina. Áskell Heiðar Ásgeirsson, einn forsvarsmanna Bræðslunnar, segir hátíðina hafa gengið eins og í sögu.

„Stemningin var algjörlega frábær, svona hátíðir standa alltaf og falla með veðrinu. En við unnum í veðurlottóinu enn eina ferðina og höfum sem betur fer oftast gert. Hér var fólk í alsælu, í yndislegri náttúru, í yndislegu veðri með frábæra tónlist, þannig að þetta fór allt saman afskaplega vel fram.“

Áskell segir aðsóknina hafa verið góða þrátt fyrir yfirvofandi innanlandsaðgerðir. „Við höfum venjulega verið að klára um miðnætti en við flýttum dagskránni um klukkutíma og það voru allir komnir út vel fyrir miðnætti.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »