Tvíburar björguðu ferðamönnum úr svartaþoku

Einar Guðnason, pólsku ferðamennirnir og Þorgeir Guðnason eftir björgunaraðgerðina.
Einar Guðnason, pólsku ferðamennirnir og Þorgeir Guðnason eftir björgunaraðgerðina. mbl.is/Jónas Erlendsson

Tvíburarnir Þorgeir og Einar Guðnasynir komu pólskum ferðamönnum til aðstoðar í gær þegar fólkið lenti í sjálfheldu í svartaþoku við Þakgil í Mýrdal. Bræðurnir eru í björgunarsveitinni Víkverja og kom útkallið um þrjúleytið í gær. 

„Parið var á slóðanum en var í miklum halla þegar svartaþoka skall á, ásamt rigningu og roki. Þau sáu ekki neitt,“ segir Þorgeir og bætir við að ferðamennirnir hafi gert það rétta í stöðuna og kallað á aðstoð. Þorgeir segir að aðstæður breytist mjög hratt þegar þokan umlykur fólk. „Fólk sér mjög lítið, sérstaklega ef það þekkir ekki landslagið. Á tímapunkti sáu þau einungis bratta og fundu fyrir rokinu,“ segir Þorgeir og nefnir að um stund hafi hann ekki einu sinni séð Einar bróður sinn þótt þeir stæðu nánast hlið við hlið.

Lánaði björgunarsveitarbuxurnar

„Björgunin tók smá tíma þar sem það reyndist erfitt að finna þau þar sem upplýsingarnar um að þau væru enn á slóðinni komu svolítið seint,“ segir hann en parið fannst um sexleytið. „Það gekk allt vel en þeim var orðið heldur kalt og orðin blaut.“

Parið var mjög þakklátt fyrir björgunina.
Parið var mjög þakklátt fyrir björgunina. mbl.is/Jónas Erlendsson

Bróðir Þorgeirs, Einar, var fyrstur á staðinn og lánaði þá konunni björgunarsveitarbuxurnar sínar þar sem hún var illa búin. „Henni fór þá að hitna aftur en hún var ekki nógu vel klædd miðað við aðstæður. Þau löbbuðu svo niður og gistu í Þakgili um nóttina,“ segir Þorgeir og bætir við að parið hafi verið mjög ánægt með björgunina. 

Þorgeir brýnir fyrir fólki að vera vel búið þegar þar fer í göngur og fylgjast vel með veðurspá.

mbl.is