Eldur kviknaði í hlöðu í Flóahreppi

Hárrétt viðbrögð ábúenda á sveitabænum björguðu því að ekki fór …
Hárrétt viðbrögð ábúenda á sveitabænum björguðu því að ekki fór verr. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eldur kviknaði í hlöðu á sveitabæ í Flóahreppi á Suðurlandi um sexleytið í kvöld. Hlaðan sem um ræðir er áföst gripahúsi og voru öll dýr samstundis færð úr því er eldurinn kviknaði.

Samkvæmt því sem lögregla hefur eftir varðstjóra á vettvangi björguðu hárrétt viðbrögð ábúenda á sveitabænum því að ekki fór verr, þar sem þeir náðu að slökkva eldinn áður en slökkviliðið bar að garði.

Enn var þó reykur í risi hlöðunnar og er slökkviliðið að kanna það þar sem einhverjar glæður virðast enn fyrirfinnast.

Lögreglan greinir frá því að ábúendur á sveitabænum hafi sjálfir hafið slökkvistarf, í framhaldinu höfðu þeir svo náð að færa öll dýr á milli húsa og koma þeim í skjól.

mbl.is