Þrettán skráðir í bakvarðasveit

Illa gengur að manna bakvarðasveit velferðarþjónustunnar. Sveitin á meðal annars …
Illa gengur að manna bakvarðasveit velferðarþjónustunnar. Sveitin á meðal annars að geta nýst við umönnun á hjúkrunarheimilum aldraðra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Illa gengur að manna bakvarðasveit velferðarþjónustunnar en félagsmálaráðuneytið auglýsti eftir fólki til þess að manna sveitina síðasta föstudag. Jóna Guðný Eyjólfsdóttir, sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, segir í samtali við mbl.is að þrettán manns séu skráðir í sveitina.

„Skráningin gengur í raun ekki nógu vel og við viljum bara hvetja fólk til þess að skrá sig,“ segir Jóna. Bakvarðasveitin er að sögn Jónu fyrst og fremst að aðstoða þjónustu við viðkvæma hópa sem ekki er hægt að fella niður. Til dæmis þjónustu á heimilum fyrir fatlað fólk og hjúkrunarheimili aldraðra.

Spurð hvort gerð sé krafa um reynslu í umönnunarstörfum segir Jóna: „Við gerum ekki kröfu um reynslu, þó að reynsla sé ávallt góð. Við viljum bara fá sem flesta til að skrá sig sem hafa tök á því að vera bakverðir og eru tilbúnir að veita okkur lið.“

Ekki er heldur gerð krafa um að bakverðir séu lausir í fulla vinnu, sumir sem hafa skráð sig eru í annarri vinnu líka. Jóna segir bakvarðasveitina einfaldlega verða að vera viðbúna því að smit komi upp á fleiri stöðum en einum á sama tíma. Því sé öll aðstoð vel þegin.

Stofnanirnar sjálfar semja við bakverði

Er varðar ráðningarfyrirkomulag segir Jóna það ekki á sinni könnu. „Stofnanirnar sjálfar gera ráðningarsamningana við bakverðina, og greiða bara eftir viðeigandi kjarasamningum. Við miðlum bara bakvörðunum á þá staði sem þurfa á þeim að halda.“

Vakin er athygli á tölvupóstfanginu vidbragd@frn.is en þangað má senda spurningar er viðkoma bakvarðasveitinni, auk þess sem stofnanir og vinnustaðir sem telja sig þurfa á aðstoð sveitarinnar að halda geta sent erindi sitt á netfangið.

Félagsmálaráðuneytið hefur einnig sett upp rafrænt skráningarform en þar getur fólk skráð sig í bakvarðasveitina.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að fá upplýsingar um stöðu mála í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar fengust ekki svör frá ráðuneytinu.  

mbl.is