118 smit innanlands

Röð í sýnatöku við Suðurlandsbraut á miðvikudag.
Röð í sýnatöku við Suðurlandsbraut á miðvikudag. mbl.is/Árni Sæberg

118 kórónuveirusmit hafa greinst innanlands eftir sýnatöku gærdagsins. Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á covid.is. 

Í gær var 51 í sóttkví við greiningu og 67 utan sóttkvíar. 

Alls eru nú 966 í einangrun og 2.508 í sóttkví. Áfram eru átta eru á sjúkrahúsi. Af þeim sem greindust í gær voru 80 fullbólusettir, bólusetning hafin hjá fjórum og 34 óbólusettir. 

104 smit greindust við einkennasýnatöku í gær og 14 við sóttkvíar- og handahófsskimanir. Ekkert smit greindist á landamærunum. 

Færri sýni tekin í gær

Mikill fjöldi sýna hefur verið tekinn síðustu daga og er ekki útilokað að fleiri smit eigi eftir að greinast eftir sýnatöku gærdagsins. Hafi fleiri smit greinst í gær koma þau fram í uppfærðum tölum á morgun. 

Töluvert færri sýni voru tekin í gær en í fyrradag. Alls voru 3.560 sýni tekin við einkennasýnatöku, 305 á landamærunum og 1.253 sýni voru tekin við sóttkvíar- og handahófsskimanir. 

Hlutfall jákvæðra sýna hækkar á milli daga og var í gær 2,92% við einkennasýnatöku samanborið við 2,45% í fyrradag. Hlutfall jákvæðra sýna við sóttkvíar- og handahófsskimanir var í gær 1,12% samanborið við 0,95% í fyrradag. 

Í fyrradag greindust alls 122 smit innanlands, en yfir 6 þúsund sýni voru tekin á þriðjudag sem er mestur fjöldi sýna frá því að faraldurinn hófst. Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is