Hegðun konunnar hafi verið óviðeigandi

Frá bólusetningu gegn Covid-19.
Frá bólusetningu gegn Covid-19. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það mega allir hafa sínar skoðanir en það að koma þeim á framfæri með þessum hætti er ekki viðeigandi,“ segir Margrét Héðinsdóttir, verkefnastjóri bólusetninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, um það þegar kona veittist að ófrískum konum á leið í bólusetningu í morgun.

„Þið eruð að drepa börn­in okk­ar,“ er á meðal þess sem kon­an mun hafa tjáð viðstödd­um.

Konan var handtekin og segir Margrét að atvikið hafi haft áhrif á þær konur sem lentu í því að konan öskraði á þær og greip í þær.

„Þessi kona hafði aðferðir sem flestir samþykkja ekki við að koma sínum skoðunum á framfæri. Þetta hafði engin áhrif á bólusetningarnar, hingað mættu svipað margir og við vorum búin að búast við,“ segir Margrét.

497 mættu og fengu sprautu

497 manns mættu í bólusetningu á Suðurlandsbraut í dag, þar af voru um 90% ófrískar konur. Hin 10% samanstóðu af fólki sem hafði ekki fengið bólusetningu en þurfti á henni að halda nú, til dæmis fólk sem var að ljúka krabbameinsmeðferð og gat því ekki farið í bólusetningu á sínum tíma. Margrét segir að bólusetningin hafi gengið vel.

Örvunarskammtar fyrir starfsfólk skóla í næstu viku

Í næstu viku hefst bólusetning kennara og starfsfólks skóla sem hafði fengið bóluefni Janssen en fær nú örvunarskammt af bóluefni Pfizer.   

„Við vildum leggja áherslu á að klára bólusetningu starfsfólks skólanna áður en skólarnir byrja,“ segir Margrét um það.

Bólusetning hópsins hefst 3. ágúst og stendur til 13. ágúst.

Aðrir sem fengu bóluefni Janssen verða boðaðir síðar í örvunarskammt. Það verður dagana 17., 18. og 19. ágúst. Þá verða haldnir stórir bólusetningardagar í Laugardalshöllinni þar sem fólki sem á eftir að fá seinni skammt af Pfizer býðst sú bólusetning. Margrét segir ekki hægt að flýta ferlinu þar sem starfsliðið sé nú fámennt.

mbl.is