Þetta virðist vera fínt kríuár

Seltjarnarnes Mikið kríuvarp er í næsta nágrenni við Nesvöll, sem …
Seltjarnarnes Mikið kríuvarp er í næsta nágrenni við Nesvöll, sem er mjög vinsæll golfvöllur. Þeir sem spila á vellinum verða vel varir við kríurnar sem eru næstu nágrannar golfvallarins. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta virðist ætla að verða fínasta kríusumar þar sem ég hef skoðað kríuna í vor og sumar. Það er óvenjugott varp hjá henni,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur á Stokkseyri. Ástandið er með betra móti á Innnesjum og mjög gott í Grímsey, þar sem hann var staddur í gær.

„Seltjarnarnesið er mjög fínt. Ég held að varpið þar hafi lengi ekki verið jafn gott og það er nú,“ sagði Jóhann Óli. Eins var kríuvarpið ágætt á Stokkseyri. Nýlega var hann á Snæfellsnesi og þar voru komnir ungar og krían að bera í þá æti. Hann fór meðal annars að Rifi en þar er mikið kríuvarp. Þar var mikið líf.

„Þar sem krían verpir hér er ástandið á henni mjög gott,“ segir Brynjúlfur Brynjólfsson, fuglaáhugamaður á Höfn í Hornafirði. Stærsta kríuvarpið í Austur-Skaftafellssýslu er við Hala í Suðursveit og gróft áætlað urpu þar meira en 2.000 pör í vor.

„Það er ekki óvenjulegt að um 40% af ungunum drepist í þokkalegu ári. Annar unginn étur þá hinn út á gaddinn. Núna er alger undantekning að finna dauða unga,“ sagði Brynjúlfur. Varpið var um viku seinna en venjulega, líklega vegna kulda í vor. gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert