Níu liggja inni með Covid-19

Heilbrigðisstarfsmenn á Landspítalanum.
Heilbrigðisstarfsmenn á Landspítalanum. Ljósmynd/Landspítalinn

Níu sjúklingar liggja inni á Landspítala með Covid-19, sjö á legudeildum og tveir á gjörgæslu.

Hvorki voru innlagnir né útskriftir síðastliðinn sólarhring en einangrun var aflétt af einum sjúklingi, að því er kemur fram á vefsíðu Landspítalans.

1.066 eru í eftirliti á Covid-göngudeild, þar af 132 börn. Þrír eru á rauðu en 18 einstaklingar flokkast gulir.

18 starfsmenn eru í einangrun, 20 í sóttkví A og í vinnusóttkví eru 120 starfsmenn. Þess er vænst að stór hópur starfsmanna losni úr vinnusóttkví eftir daginn í dag.

Í gær var greint frá því að sjúklingur og starfsmaður á blóð- og krabbameinslækningadeild hefðu greinst með Covid-19 og gripið hefði verið til ýtrustu ráðstafana í kjölfar þess. Í ljósi þess að niðurstöður prófanna voru ekki afgerandi var ákveðið að endurtaka þau.

Nú liggur fyrir að bæði prófin voru neikvæð. Báðir einstaklingar eru því lausir úr einangrun, sjúklingar eru lausir úr sóttkví og starfsmenn úr vinnusóttkví C.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert