Íbúum landsins fjölgaði um 1,1%

Íbúum í Reykjavík hefur fjölgað um 981 síðan 1. desember …
Íbúum í Reykjavík hefur fjölgað um 981 síðan 1. desember 2020. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samkvæmt tölum frá Þjóðskrá fjölgaði íbúum á landinu um 3.920 frá 1. desember 2020 eða um 1,1%.

Á tímabilinu fjölgaði íbúum Reykjavíkur um 981 og íbúum Kópavogsbæjar um 570. Hins vegar fækkaði íbúum í Hafnarfirði um 154 og íbúum á Seltjarnarnesi um 18 íbúa.

Hlutfallslega varð mest fjölgun á tímabilinu í Helgafellssveit en þar fjölgaði íbúum um 14 eða um 21,5%. Þar á eftir kemur Hörgársveit en þar varð 7,3% fjölgun en íbúum fækkaði um 47.

Hlutfallsleg fækkun var mest í Eyja- og Miklaholtshreppi en þar fækkaði íbúum um 14,2%.

Íbúum fjölgaði í öllum landshlutum á tímabilinu. Hlutfallslega varð mest fjölgun á Austurlandi en þar fjölgaði íbúum um 1,8%. Hins vegar fækkaði íbúum í 24 sveitarfélögum af 69 á umræddu tímabili.

Frekari upplýsingar má finna á vef Þjóðskrár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert