Merkjanlegar breytingar á hegðun eldgossins

Ekki hefur sést glóð í gíg eldgossins í Geldingadölum frá …
Ekki hefur sést glóð í gíg eldgossins í Geldingadölum frá því í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hegðun eldgossins í Geldingadölum virðist vera að taka breytingum á ný en ekki hefur sést glóð í gígnum frá því í nótt, samkvæmt upplýsingum frá Lovísu Mjöll Guðmundsdóttur, náttúruvársérfræðingi hjá Veðurstofu Íslands.

„Það hefur ekki sést glóð í gígnum frá því í morgun. Óróinn er ekki alveg fallinn en hann fór þarna upp um miðnætti í gær og það sást aðeins glóð í gígnum í nótt. Óróinn er pínu flatur eins og er en liggur ekki alveg niðri,“ segir Lovísa í samtali við mbl.is.

Of snemmt að spá um endalok gossins

Innt eftir því segir Lovísa of snemmt að segja til um hvort breytt hegðun gossins vísi á endalok þess. Vel sé þó fylgst með gangi mála á Veðurstofunni.

„Þetta er bara spurning um hvað er í gangi núna. Þetta er aðeins öðruvísi núna en hefur verið seinustu daga. Við höfum ekki séð óróann haldast uppi og vera svona flatan lengi án þess að það sé eitthvað í gangi. Það er bara spurning hvað er á seyði núna. Við fylgjumst með hverju það tekur næst upp á, sjáum hvernig þetta þróast og förum þá í að túlka það.“

Um 17.416 manns hafa lagt leið sína upp að gosi …
Um 17.416 manns hafa lagt leið sína upp að gosi undanfarna 7 daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkvæmt mælaborði ferðaþjónustunnar hafa um 17.416 manns lagt leið sína upp að eldgosinu undanfarna sjö daga og er nokkuð víst að enginn þeirra hefur farið fýluferð þar sem mikil virkni hefur verið í gosinu fram að þessu, að sögn Lovísu.

„Það hefur verið mikil virkni seinustu daga. Um helgina voru þessir reglulegu púlsar áframhaldandi eins og hafa verið seinustu vikur. Fara upp í nokkra klukkutíma og niður í nokkra klukkutíma með fallegu mynstri upp og niður. Það sást mjög mikið í gær svo það hefur verið mjög fallegt að horfa á gosið þá og eflaust líka um helgina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert