Dregur úr trausti til lögreglu

Lögreglustöðin á Hverfisgötu.
Lögreglustöðin á Hverfisgötu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikill meirihluti landsmanna styður aðgerðir lögreglu vegna kórónuveirunnar, eða 81%, en hlutfallið var 89% árið 2020. Lítill hluti landsmanna, eða 4%, telur að aðgerðir lögreglu vegna veirunnar séu of harkalegar.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar á viðhorfum landsmanna til þjónustu og starfa lögreglu sem framkvæmd var af Félagsvísindastofnun á vormánuðum. Könnun var lögð fyrir fjögur þúsund landsmenn á aldrinum 18 til 90 ára og var svarhlutfall 52%.

Samkvæmt rannsókninni hefur aðeins dregið úr trausti til lögreglu. Þrátt fyrir það segjast rúmlega átta af hverjum 10 bera traust til lögreglu og starfa hennar. Þetta hlutfall var hæst árið 2018 þegar 87% báru traust til lögreglu. Lækkunin skýrist fyrst og fremst af minnkandi trausti meðal fólks í yngsta aldurshópnum; 18 til 25 ára. 

Jafnframt hefur þó dregið örlítið úr trausti meðal kvenna, sem þó er enn hlutfallslega meira en meðal karla.

Þrír fjórðu telja lögregluna aðgengilega í nágrenninu

Um 29% landsmanna leituðu eftir þjónustu eða aðstoð lögreglu á árinu 2020, sem er 6% færri en árið 2019. Hlutfallslega flestir sem leituðu eftir þjónustu hringdu í Neyðarlínuna. Yfir 80% þeirra sem leituðu eftir þjónustu eða aðstoð lögreglu voru ánægð með þjónustuna. 

Samkvæmt rannsókninni telur mikill meirihluti landsmanna lögreglu skila góðu starfi við að stemma stigu við afbrotum í sínu hverfi eða byggðarlagi, eða um 85%. Hlutfall fólks sem taldi lögreglu hafa skilað góðu starfi var í sögulegu hámarki árið 2014 þegar yfir níu af hverjum 10 töldu lögreglu skila góðu starfi. 

Mat fólks á sýnileika lögreglu er svipað og verið hefur síðustu ár. Tæplega þriðjungur verður var við lögreglu eða lögreglubíl í sínu hverfi eða byggðarlagi oftar en einu sinni í viku. Aðeins 6% segjast aldrei sjá lögreglu eða lögreglubíl. Hlutfallslega flestir íbúar í Vestmannaeyjum verða varir við lögreglu en hlutfallslega fæstir á höfuðborgarsvæðinu. 

Þá telur meirihluti lögreglu í sínu hverfi eða byggðarlagi vera aðgengilega, eða rúmlega þrír af hverjum fjórum.

mbl.is