Einn leitaði til neyðarmóttöku

Bráðamóttaka landsspítalans í Fossvogi.
Bráðamóttaka landsspítalans í Fossvogi. mbl.is/Hjörtur

Eitt kynferðisbrotamál kom inn á borð neyðarmóttöku Landspítalans um verslunarmannahelgina. Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis, segir jákvætt að ekki hafi verið meira að gera en vill þó ekki draga úr alvarleika einstakra brota og tiltekur að eitt mál sé ávallt einu of mikið.

Lítil breyting hefur orðið milli ára en í fyrra kom einnig eitt mál inn á borð neyðarmóttökunnar yfir verslunarmannahelgina. Spurð hvort aflýsing útihátíða sé að hafa áhrif á fjölda mála segir Hrönn að almennt sé rólegra yfir verslunarmannahelgar hjá neyðarmóttökunni vegna kynferðisafbrota undanfarin ár. Var þessi þróun orðin sýnileg fyrir heimsfaraldurinn en árið 2019 komu tvö mál inn yfir verslunarmannahelgina.

Hrönn telur að rekja megi þessa fækkun að hluta til almennrar vitundarvakningar í samfélaginu gagnvart kynferðisofbeldi og einnig aukinnar fræðslu meðal þeirra sem standa að baki útihátíðum. Gæsla, kynjaskipt klósett og aukið eftirlit hafi meðal annars fælandi áhrif.Hún vekur þó athygli á að oft leitar fólk ekki til þeirra fyrr en eftir helgi og því ekki hægt að lesa of mikið úr þeim tölum sem hafa borist núna.

Hópmyndun hafi áhrif

Aðspurð kveðst Hrönn almennt ekki sjá beina tengingu milli þeirra samkomutakmarkana sem eru við lýði og fjölda mála sem koma inn á borð neyðarmóttökunnar.

Til að mynda var álíka mikið að gera á þessu ári hjá þeim í febrúarmánuði og júlí. Segir hún skemmtanir, hópmyndun og drykkju vissulega hafa áhrif en nauðganir eigi sér oftast stað í heimahúsum. Bætir hún að lokum við að kynferðisbrot eigi sér stað allan ársins hring, sama hvort það er verslunarmannahelgi eða önnur helgi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »