Fjöldi flokka á þingi mun vega þungt

Alþingi við Austurvöll.
Alþingi við Austurvöll. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Eftir 53 daga verður gengið til alþingiskosninga. Nokkrar skoðanakannanir hafa verið birtar undanfarið og sýna þær flestar sambærilega stöðu. Mögulegt er að metfjöldi flokka verði á þingi og segir Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur og dósent við Háskóla Íslands, að ætla megi að slíkt muni flækja ríkisstjórnarmyndun til muna.

„Fyrst og síðast mun þetta snúast um það hve margir flokkar ná inn á þing,“ segir Stefanía spurð um hvaða möguleikar verði á hendi við myndun ríkisstjórnar að loknum kosningum.

„Það eru þarna flokkar sem mælast með á milli 4% fylgi og upp í 7%. Það er vitaskuld ekki gott að segja til um það núna hver uppskeran verður í kosningunum. Það er náttúrlega mikill munur á því að mynda stjórn með kannski sex flokka eða mögulega allt að níu flokka sem skipta milli sín þingsætum.“

Dr. Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur og dósent við Háskóla Íslands, segir …
Dr. Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur og dósent við Háskóla Íslands, segir að fjöldi flokka á þingi muni skipta sköpum við myndun nýrrar ríkisstjórnar. mbl.is/Styrmir Kári

Mikill fjöldi atkvæða gæti fallið niður „dauður“

Fari svo að þeir flokkar sem mælast með á milli 4% og 7% fylgi fari ekki inn á þing gæti raunin orðið sú að mögulega falli allt að 12% atkvæða niður dauð við skiptingu þingsæta, en um 5% atkvæða þarf alla jafna til þess að komast inn á þing. Stefanía segir þá stöðu þó ekki vera fordæmalausa. „Þetta gerist árið 2013, en þá voru margir flokkar í framboði og dreifðust atkvæðin mjög á litlu flokkana. Svo fór að um 12% atkvæða féllu þá niður.“

Hún segir þá augljóst að þeim mun fleiri flokkar sem verði á þingi, þeim mun erfiðara verði að koma saman starfhæfum meirihluta. „Það er náttúrlega enginn einn flokkur sem er afgerandi stór. Sjálfstæðisflokkur er stór í samhengi við hina flokkana en ekki stór í sögulegu samhengi.“

Framsókn kemur alltaf upp úr kassanum

Spurð hverjir séu í lykilstöðu varðandi myndun ríkisstjórnar segir hún: „Mín kenning hefur verið sú að þeir sem geta samið bæði til hægri og vinstri séu í sterkustu stöðunni hvað varðar ríkisstjórnarmyndun. Framsóknarflokkur hefur í sögulegu samhengi verið þessi flokkur. Vinstri-grænir skiptu um taktík núna síðast og hafa leitt þessa ríkisstjórn og það hefur ekki komið sýnilega niður á fylginu.“

Eru Vinstri-grænir þá kannski komnir í þessa „framsóknarstöðu“ núna?

„Já mögulega, en þó í samfloti með Framsókn myndi ég segja. Það gefur þeim góða samningsstöðu að geta samið í báðar áttir.“

Hún bendir þá á að aðrir miðjuflokkar svo sem Samfylking og Píratar séu ekki endilega í þessari stöðu þar sem báðir flokkar hafa útilokað að starfa með Sjálfstæðisflokki. Báðum flokkum hugnast betur að semja til vinstri.

Hvað varðar Reykjavíkurmódelið svokallaða, sem vísar til meirihlutasamstarfsins í Reykjavík, segir Stefanía: „Ólíkt því sem er í borginni, þar sem Samfylkingin er akkeri samstarfsins, þá er það kannski líklegra að það verði Vinstri-grænir í landsmálunum, en maður veit það ekki.“

Oft meiri meðbyr með nýjum flokkum

Sósíalistaflokkur er í raun eini nýi flokkurinn sem á möguleika á því að koma fólki inn á þing. Stefanía segir þó ekki sama meðbyr með sósíalistum líkt og gjarnan vill vera með nýjum flokkum, ekki hvað varðar skoðanakannanir að minnsta kosti. „Það er áberandi að ólíkt öðrum nýjum flokkum sem gjarnan mælast mjög stórir í aðdraganda kosninga, sem reyndar raungerist svo sjaldan í kosningum, þá eru sósíalistar að mælast bara annaðhvort inn eða út af þingi.“

Hefðbundin mið

Spurð út í hvaða málefni hún telur að kosningabaráttan muni snúast um segir hún: „Þetta er að mér finnst allt á ósköp hefðbundnum miðum. Þ.e. stóru málin virðast ætla að verða þetta hefðbundna; heilbrigðiskerfið og framtíð þess, velferðarmálin, hvernig borga eigi niður opinberar skuldir og hvernig sé best að tryggja hagvöxt.“

Stefanía segir að í framhaldinu sé líklegt að stjórnarandstaðan muni reyna að finna göt á sóttvarnaaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Gagnrýna aðgerðir eða aðgerðaleysi, hvort sem verður. einnig segir hún að ríkisstjórnarflokkarnir muni að öllum líkindum í auknum mæli fara að huga að sinni sérstöðu. „Ýta mögulega aðeins í samstarfsflokkana, eigna sér heiðurinn af ákveðnum málum og þess háttar. En þetta er bara hefðbundið og fylgir kosningabaráttu.“

mbl.is