Verulegar áhyggjur yfir fjölda sjúkraflutninga

Fjöldi sjúkraflutninga hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var 169 síðastliðinn sólarhring.
Fjöldi sjúkraflutninga hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var 169 síðastliðinn sólarhring. Ljósmynd/Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins

Fjöldi sjúkraflutninga hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins fór í 169 síðastliðinn sólarhring. 

Ekki er um metfjölda að ræða, enda er metið nokkuð hátt eða 186 flutningar á einum sólarhring. Fjöldi sjúkraflutninga síðastliðinn sólarhring er nálægt metinu og staðan verið slík nokkra daga í röð. 

Ekki er langt síðan að fátítt var að fjöldi flutninga fór yfir 100 á sólarhring. 

Af sjúkraflutningum síðastliðinn sólarhringinn voru 57 flutningar á sjúklingum með staðfest Covid-19. Fjögur útköll voru minniháttar er kemur fram á Facebook-síðu Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. 

Guðmundur Guðjónsson, inni-varðstjóri á vakt hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við mbl.is að greinilegt sé að fólk sé lasið heima hjá sér. 

„Bara eins og staðfest hefur verið á Covid-19 göngudeildinni þá eru þónokkuð margir sem eru veikir heima.

Kúfurinn á veikindum eftir að koma 

Það eru mjög margir að greinast og eins og sóttvarnalæknir hefur sagt er hluti af þeim sem veikist og hluti þeirra veikist alvarlega. Það sést í öllum tölum og innlögnum á spítala fjölgar. Veikindin taka alltaf lengri tíma að koma fram en greiningin eða á fimm til sjö dögum eftir greiningu. Þannig að kúfurinn á veikindum á eftir að koma miðað við tölurnar sem við höfum séð síðustu daga,“ segir Guðmundur. 

„Við erum bara mjög áhyggjufullir yfir stöðunni,“ bætir hann við. 

Hann segir sjúkraflutningamenn finna fyrir vaxandi álagi og þunga í Covid-19 flutningum sem valdi miklum áhyggjum. 

mbl.is