Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar, segir ummæli sóttvarnalæknis ekki alveg ríma við það sem kom fram á fundi nefndarinnar í vikunni, en markmið fundarins var að meta alvarleika faraldursins.
Ljóst er að sóttvarnayfirvöld hafa gert stefnubreytingu eftir að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í Sprengisandi í morgun að nú þyrfti að láta reyna á að ná hjarðónæmi gegn veirunni. Sagðist hann ekki leggja til harðar aðgerðir til að varnar útbreiðslu veirunnar, enda gæti markmiðið ekki lengur verið að útrýma veirunni úr samfélaginu.
mbl.is reyndi að ná tali af Þórólfi í dag en var tjáð af upplýsingafulltrúa almannavarna að hann væri í sumarleyfi.
Innt eftir viðbrögðum við þessu segir Helga: „Ég treysti hans dómgreind sem fyrr, hann er mun fróðari en ég í sóttvarnamálum. Ég treysti því að hann sé að ráðleggja okkur samkvæmt sinni bestu þekkingu.“
Þú hefur talið að það eigi að herða sóttvarnaaðgerðir. Ertu enn þeirrar skoðunar?
„Það var gert líka eftir að ég talaði um það. Þórólfur talaði um að hefja skimanir á landamærum og ég taldi að það ætti að fylgja því, sem hefur verið gert.“
En taldirðu að það ætti að herða innanlands?
„Ég talaði ekki um að það ætti að herða innanlands. Síðan nefndi ég líka þessi hraðpróf sem verið er að nota annars staðar í heiminum en hann leggur það ekki til.“
Þetta eru samt vissulega stórar fréttir?
„Þetta eru stórar fréttir. Það sem hann er að segja í dag er ekki alveg sambærilegt við það sem sérfræðingar sögðu á fundi velferðarnefndar í vikunni. Samt getur maður ekki annað en treyst því að hann sé að segja þetta eftir sinni bestu sannfæringu.“