Engin leið að spá fyrir um goslok

Eldgosinu í Geldingadölum má skipta upp í fjögur tímabil.
Eldgosinu í Geldingadölum má skipta upp í fjögur tímabil. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eldgosið í Fagradalsfjalli er frábrugðið þeim gosum sem við höfum orðið vitni að undanfarna áratugi. Þetta kemur fram í kortlagningu jarðvísindasviðs Háskóla Íslands á hraunflæði og gaslosun þess.

Flest gos hafa átt upptök sín í kvikuhólfum undir megineldstöðvum þar sem stærð og lengd gossins ræðst mest af þrýstingu í hólfinu.

Í Fagradalsfjalli er aftur á móti útlit fyrir að kvikuflæðið ráðist af aðstreymisæðinni og eiginleikum hennar. Engin leið er því að spá fyrir um goslok.

119 milljón rúmmetrar af hrauni

Rásin sem opnaðist upprunalega hafði takmarkaða flutningsgetu enda þröng og löng eða um sautján kíllómetra niður í jörðu.

Fyrstu vikurnar var mikil aukning á hraunflæði sem bendir til þess að rásin hafi víkkað með tímanum, sennilega vegna rofs í veggjum hennar.

Vísindamenn segja hegðun gossins í lok júní athyglisverða. Fyrrihluta júlí hafi svo dregið úr hraunflæðinu en það jókst aftur þegar kviðuvirknin varð regluleg, um miðjan mánuðinn.

Nú er hraunið 119 milljón rúmmetrar og flatarmálið 4,4 ferkílómetrar.  Mælingar sýna að hraunrennslið síðustu 12 daga hefur að meðaltali verið 9,3 rúmmetrar á sekúndu. 

Í rúman mánuð hefur ekkert hraun runnið í Geldingadölum, Nátthaga og í Syðri-Meradölum. Það gæti þó hyllt undir breytingar en á mánudag rann lítill hrauntaumur yfir gígvegginn til suðurs, niður í Geldingadali.

Nú er hraunið 119 milljón rúmmetrar og flatarmálið 4,4 ferkílómetrar
Nú er hraunið 119 milljón rúmmetrar og flatarmálið 4,4 ferkílómetrar mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjögur tímabil

Skipta má gosinu í fjögur tímabil. Fyrstu tvær vikurnar einkenndust af stöðugu hraunrennsli, að meðaltali  sex rúmmetrar á sekúndu.

Næstu tvær vikur mynduðu annað tímabilið. Þá opnuðust ný gosop norðan við upphaflegu gígana og var það einkennandi fyrir tímabilið. Hraunrennslið varð því nokkuð breytilegt, á bilinu fimm til átta rúmmetrar á sekúndu. Eftir þetta tímabil hefur virknin verið öll í einum gíg.

Þriðja tímabilið var lengra en það varði í tvo og hálfan mánuð og endaði í lok júní. Hraunrennsli var nokkuð stöðugt, um tólf rúmmetrar á sekúndu. Rann hraunið ýmist í Geldingadali, Meradali eða Nátthaga.

Í lok júní hófst svo fjórða tímabilið sem hefur einkennst af kviðukenndri virkni og virðist hraunrennsli hafa sveiflast töluvert.

Kortlagning hraunsins er samstarfsverkefni margra aðila. Þeir helstu eru Jarðvísindastofnun Háskólans, Náttúrfræðistofnun Íslands og Landmælingar Íslands.  Einnig koma að verkinu Veðurstofan, Ísavia og almannavarnir.

Breytingar á efnasamsetningu kvikunnar

Efnasamsetning kvikunnar hefur breyst með tíma. Breytingin kemur best fram í þyngdarhlutföllum utangarðsefna. Það má túlka hana á tvenna vegu.

Fyrri túlkunarmöguleikinn er að annars vegar kunna bráðir mismunandi möttulefna að blandast saman áður en kvikan rís í gegnum jarðskorpuna. Hins vegar gæti kvika mynduð við minni hlutbráðun möttulefnis verið farin að gjósa í auknum mæli.

Seinni túlkunarmöguleikinn bendir til minni kvikuframleiðslu úr möttulefni sem með tíð og tíma mun leiða til gosloka.

Á vef Háskólans segir að fleiri mælingar á samsætuhlutföllum muni hjálpa til við að velja á milli þessara túlkunarmöguleika. Að gasmælingum koma sérfræðingar Veðurstofunnar og fólk á Jarðvísindastofnun.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert