Vissi ekki af máli Þórhildar fyrr en á fimmtudag

Hanna Björg var gestur í viðtalsþættinum Sprengisandi í morgun.
Hanna Björg var gestur í viðtalsþættinum Sprengisandi í morgun.

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, framhaldsskólakennari og formaður jafnréttisnefndar Kennarasambands Íslands, segist ekki hafa vitað af máli Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur þegar hún skrifaði pistil um þöggun ofbeldismála innan KSÍ. Hún segist þó vita af fjölda annarra mála. Þetta kemur fram í viðtali við Hönnu á Sprengisandi í dag. 

Heyrði nýjustu frásögnina í morgun

Hanna segist þekkja til fjölda sagna af kynferðislegu ofbeldi af hálfu landsliðsmanna. Hún hefði síðast frétt af hópnauðgun í morgun. Þá hafði móðir ungrar konu sett sig í samband við hana, Hanna vissi hverjir gerendurnir væru og hvenær atvikið átti sér stað. 

Hún gagnrýnir stjórn KSÍ og segir breytinga þörf eftir atburðarás síðustu daga: „Er Guðni Bergsson starfi sínu vaxinn ef hann sér ekki hvað er að gerast í kringum sig? Auðvitað er það þeirra starf að vita og auðvitað vita þau.“

Tími róttækra breytinga

Hún segir ábyrgð sambandsins gífurlega mikla. „Þetta eru 30 þúsund félagsmenn. Það er ekki lítil ábyrgð. Uppeldishlutverkið er gífurlega stórt. Litlir krakkar búnir að setja þessa menn á stall, núna samankrumpaðir. Þetta er rosalegur skandall fyrir KSÍ að þurfa að horfast í augu við þetta.“

Fleiri þurfa að taka þátt í baráttunni til þess að geta gert gagngerar breytingar í málinu að mati Hönnu: „Íþróttafréttafólk vissi þetta, annað er óhugsandi. Er fólk blint og heyrnarlaust eða er það að fylgjast með því sem er að gerast? 

Aðildarfélög verða að rísa upp og krefjast róttækra breytinga, þú setur ekki plástur á krabbamein.“

Lilja ætlar að óska eftir skýringum

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði í viðtali við Rúv í gær að hún myndi óska eftir skýringum frá KSÍ um þessi málefni. Henni þyki sérstakt að KSÍ byði þolendum ofbeldisbrota landsliðsmanna þagnarskyldusamninga. 

Stjórnin verður auðvitað að taka á þessu máli af mikilli festu. Það er alveg ljóst að það verða að eiga sér stað breytingar,“ sagði Lilja sem er ráðherra íþróttamála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert