Komi ekki niður á þeim sem síst skyldi

Skiptar skoðanir eru um styttingu opnunartíma leikskóla.
Skiptar skoðanir eru um styttingu opnunartíma leikskóla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borgarmeirihlutinn mun tryggja að styttri opnunartímar leikskóla komi ekki niður á þeim sem síst skyldi. Þetta segir Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður velferðarráðs.

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir sveigjanleikann vanta fyrir foreldra og að breytingin komi sérlega illa niður á tekjulágum foreldrum og fólki af erlendum  uppruna.

Borgarráð hefur samþykkt tillögu um að stytta opnunartíma leikskóla þannig að þeim verði lokað klukkan 16.30 í stað 17.

Málið var samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og fer það til endanlegrar staðfestingar borgarstjórnar.

Tillaga meirihlutans felur í sér að einn til tveir leikskólar verði opnir í hverju hverfi til klukkan 17 til að koma til móts við foreldra sem eiga erfitt með að sækja börnin sín fyrr.

Um tveggja ára tilraunaverkefni er að ræða.
Um tveggja ára tilraunaverkefni er að ræða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í bókun meirihlutans kemur fram að það hafi verið í sérstökum forgangi „að bæta starfsaðstæður í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi og tillögur um breyttan opnunartíma, breytt skipulag leikskóladagsins, nýtt úthlutunarlíkan og fleira þjóna sama markmiði”.

Reyna á að viðhalda gæðum leikskólastarfsins með styttri viðverutíma barna en jafnframt grípa til mótvægisaðgerða sem taki mið af niðurstöðum jafnréttismats.

Fram kemur að Reykjavík gangi lengra til móts við þarfir foreldra en gert hefur verið í öðrum sveitarfélögum sem stytt hafa opnunartíma leikskóla, s.s. í Kópavogi, á Akureyri, í Reykjanesbæ og víðar. Um tveggja ára tilraunaverkefni er að ræða.

Mótvægisaðgerðirnar mæti þörfum 

Heiða Björg segir tillögurnar um styttingu opnunartímans hafi verið unnar í samstarfi við leikskólakennara og að það hafi verið eindregnar óskir þeirra og hluti af því að bæta starfsumhverfi leikskóla.

Hún segir mörg önnur sveitarfélög hafa gert hið sama með góðum árangri, auk einkarekinna leikskóla í borginni, og bætir við að opnunartíminn hafi verið til klukkan 16.30 síðan kórónuveirufaldaldurinn hófst, vegna aukinna þrifa.

„Við létum hins vegar gera jafnréttismat af því að okkur femínistum leist ekkert of vel á þessar fyrirætlanir og við erum fullviss um það núna að þessar mótvægisaðgerðir með að hafa opna leikskóla í hverju hverfi lengur mæti þeim þörfum,” segir Heiða Björg.

Heiða Björg Hilmisdóttir.
Heiða Björg Hilmisdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Við munum fylgjast með því og tryggja að þetta komi ekki niður á þeim sem síst skyldi. En okkur er umhugað um að starfsumhverfi leikskóla sé gott og ef þetta hjálpar okkur að manna þá með fagmenntuðu fólki og þau verða þá ánægðari þá er það betra fyrir börnin og foreldrana líka,” bætir hún við.

Farið verður í að tala við alla foreldra sem hafa nýtt sér lengri opnunartíma og reynt að mæta þeirra þörfum. „Okkur skilst að þetta séu ekki það margir [foreldrar] en þetta má alls ekki bitna á einstæðum mæðrum, efnaminni foreldrum eða nokkrum,” segir Heiða, sem kveðst hafa fullan skilning á gagnrýni minnihlutans.

Ódýr leið 

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir flokkinn hafa frá upphafi lagst alfarið gegn skerðingu á þjónustu leikskólanna. Henni hafi verið mótmælt harkalega í upphafi síðasta árs. Í framhaldi hafi málið verið sent í jafnréttismat. Niðurstaðan úr því, sem kom sumarið 2020, hafi sýnt allt sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi óttast. Að breytingin myndi m.a. koma illa niður á vinnandi mæðrum og fólki af erlendum uppruna.

„Við héldum að þessi niðurstaða myndi nægja ríflega til að koma í veg fyrir þessa breytingu en svo kemur þetta í haust og það eru greinilega ennþá full áform um að fara í þessar breytingar,” segir Hildur.

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi.
Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi.

Spurð út í áætlun meirihlutans um að hafa opna leikskóla í hverju hverfi til að mæta þörfum þeirra sem eiga erfitt með að sækja börnin sín fyrr, segir hún þá leið vera frekar ódýra til að bregðast við jafnréttismatinu.

„Eins og matið sýnir kemur þessi breyting sérlega illa niður á tekjulágum foreldrum og fólki af erlendum uppruna. Þegar fólk býr jafnvel við fátækt eða flytur hingað til lands og á lítið bakland þá eru börnin þegar í viðkvæmri stöðu. Það á að taka nákvæmlega þessi börn og leggja það á þau að þurfa að fara úr sínu öruggi og skipta um leikskóla og mér finnst það verulega vont og engin lausn á þessu máli og svarar sannarlega ekki bestu hagsmunum barnsins,” greinir Hildur frá.

Meira svigrúm í Hafnarfirði 

Varðandi það að önnur sveitarfélög hafi stytt opnunartímann með góðum árangri segist hún ekki geta séð að slík reynsla sé komin á málið til að geta sagt það. Hún nefnir að annars konar breyting hafi verið gerð í Hafnarfjarðarbæ um að hverju barni hafi verið úthlutað átta og hálfri klukkustund á hverjum degi á leikskóla og að foreldrar hafi svigrúm innan dagsins til að velja þann tíma. Enginn slíkur sveigjanleiki sé aftur á móti í boði í Reykjavík. Skerðingin þar miði af því að allar fjölskyldur falli í sama formið og þær vinni samskonar vinnudag.

Hildur kallar eftir því að fleiri en leikskólakennarar og -starfsfólk fái að koma að málinu vegna styttingarinnar í  Reykjavík, meðal annars fulltrúar foreldra og fjölskyldusamfélagsins og fulltrúar atvinnulífsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert