Hraðpróf gætu orðið hluti af dag­legu lífi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist eiga von á því að í ljósi stöðu faraldursins hér á landi séu afléttingar á næsta leiti. Núgildandi reglugerð er í gildi fram á föstudag í næstu viku, 17. september.

„Ég meina okkur gengur vel með faraldurinn, hann virðist vera á niðurleið eða í rénun, þannig að ég geri ráð fyrir að næstu skref verði afléttingar,“ segir Svandís.

„Ég er ekki komin með minnisblað í hendur en það gæti komið á næstu dögum, það er frekar líklegt.“

Segist vera ósammála Kára

„Ég held að það sé nú ekki ómögulegt að átta sig á hvað er í gangi,“ segir Svandís og vísar þar í ummæli Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, en hann skrifaði í aðsendri grein á Vísi að núverandi takmarkanir væru illverjanlegar og að ómögu­legt sé fyr­ir al­menn­ing að átta sig á því hvað er í gangi varðandi fyr­ir­mæli í sótt­vörn­um.

„Ég meina við erum á tiltekinni leið og þessi fjórða bylgja kom býsna bratt að okkur og við erum að sjá hana fara niður núna með mjög afgerandi hætti og innlögnum á spítala hefur fækkað hratt og í kjölfarið hljótum við að draga úr takmörkunum og aflétta þeim, ég held að það leiði af sjálfu sér.“

Covid-19-hraðpróf.
Covid-19-hraðpróf. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verður að koma í ljós hversu lengi hraðprófin verða notuð

Svandís segist vonast til þess að þar sem hraðprófin eru komin í heilsugæsluna muni það koma til með að létta eitthvað undir.

„Ég meina við erum að tala um þessa notkun sem snýst um smitgátina og það ætti að fara í gang núna í dag, eftir því sem ég best veit. Síðan varðandi stærri viðburði núna í lok vikunnar og það náttúrulega hjálpar og liðkar til í samfélaginu, þannig að ég held að það sé jákvætt en síðan verður það að koma í ljós hversu lengi við erum að nýta þennan hluta af okkar ráðstöfunum,“ segir Svandís.

„Ég meina, þetta verður augljóslega bara eitthvert tímabil þar sem hraðprófin eru hluti af okkar ráðstöfunum, þó að það geti verið að þessi próf verði hluti af okkar daglega lífi og þar með talin sjálfsprófin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert