Fagnar þróun alzheimerlyfja

Málþing um alzheimer fer fram þann 21. september.
Málþing um alzheimer fer fram þann 21. september. AFP

„Ég fagna því þegar lyfjafyrirtæki leggja sig fram við að finna lyf gegn alzheimer, sjúkdómi sem engin ný lyf hafa komið við í meira en tuttugu ár,“ segir Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna.

Morgunblaðið birti sl. föstudag viðtal við dr. Lars Lannfelt. Hann greindi frá nýju lyfi sem nú er í þriðja fasa prófana og er ætlað að hamla framgöngu alzheimers-sjúkdómsins.

Vilborg segir að sér sýnist þetta nýja lyf geta verið áþekkt öðru lyfi sem greint var frá fyrr í sumar. „Þetta eru hvort tveggja líftæknilyf. Þau eru mjög dýr og við höfum ekki séð íslensk heilbrigðisyfirvöld vera mjög viljug til að greiða niður ný og dýr lyf. Svo þarf að gefa þetta í æð. En ég fagna því mjög að fá þessar jákvæðu fréttir en ég vil ekki vekja falskar vonir hjá fólki sem nú er að veikjast. Þetta er enn í þróun og virðist virka best áður en sjúkdómurinn þróast að ráði.“

Hún segir að skili lyfjarannsóknir fullnægjandi niðurstöðu og nýja lyfið komist í gegnum síu Lyfjastofnunar Evrópu þurfi íslensk yfirvöld að samþykkja greiðsluþátttöku áður en íslenskir sjúklingar geta fengið lyfið.

Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna.
Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna. Ljósmynd/Alzheimersamtökin

Málþingið er öllum opið

Alzheimersamtökin standa fyrir málþingi á alþjóðlega alzheimerdeginum 21. september kl. 17-19 í þingsal Hótel Natura.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður samtakanna, stýrir fundinum. Dr. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, heldur erindi um hvað veldur sjúkdómnum. Dr. Jón Snædal öldrunarlæknir mun fjalla um hvort erfðaupplýsingar nýtist við greiningu á alzheimer. Ásta Dýradóttir, safnafræðingur og aðstandandi, fjallar um listir, samúð og víxlverkun. Svavar Knútur Kristinsson flytur tónlist. Aðgangur er ókeypis og skráning óþörf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »