Listaverkið er sannkölluð orkustöð

„Við unnum bókstaflega með tveggja til þriggja daga gamalt hraun. Við byggjum verkið á nýrunnu hrauni úr Geldingadölum og fengum leyfi hjá björgunarsveit og lögreglu til að fara inn á svæðið og ná í efnið. Það var ótrúleg reynsla að standa þarna við nýorpna jörð. Það var áfella á hrauninu, eins konar himna. Ég varð vitni að því að þegar hraunið kólnaði sprakk himnan upp og varð eins og svartur kristall. Þetta gerðist í sömu andrá á stóru svæði. Ég hef aldrei áður séð svona gerast,“ segir listamaðurinn Tolli.

Hann vann verkið með Jóni Ólafssyni járnsmíðameistara. Grunnur þess er 2x3 m álplata og vegur verkið 120-130 kíló. Á plötuna var borið epoxý og farið frjálslega með liti. Hraunmolar voru límdir við plötuna. Loks voru kristalflísar lagðar ofan í epoxýið. Rist var í álplötuna og rauð LED-ljós sett á bak við. Þau skapa þá stemningu að glóð sé undir niðri og heitir verkið Undir niðri.

Tolli segir gerð verksins hafa opnað margar gáttir og kveikt fullt af hugmyndum. Hann nefnir að um miðja síðustu öld hafi íslenskt hraun og grjót verið mikið notað við ýmsa listsköpun. Þessi mynd kallist á við það tímabil.

Listaverkið prýðir No Concept við Hverfisgötu 4-6. „Við náðum að fanga raunverulega orku og flytja hana inn í hús. Þetta listaverk er sannkölluð orkustöð,“ sagði Tolli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert