Pure North Recycling hlaut Bláskelina

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Börkur Smári Kristinsson, rannsóknar- …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Börkur Smári Kristinsson, rannsóknar- og þróunarstjóri hjá Pure North og Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrverandi forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Endurvinnslufyrirtækið Pure North Recycling hlaut í dag Bláskelina, viðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir framúrskarandi lausn í plastmálefnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhenti Berki Smára Kristinssyni, rannsóknar- og þróunarstjóra hjá Pure North, verðlaunin á málþingi Plastlauss septembers.

Knýr starfsemi sína með jarðvarma

Pure North Recycling fæst við endurvinnslu plasts og knýr starfsemi sína með jarðvarma. Fyrirtækið fullnýtir glatorku við bæði þvott og þurrk á hráefninu og dregur þannig úr kolefnisspori endurvinnslunnar um 80%, miðað við sambærilega vinnslu í Evrópu. 

Pure North Recycling hefur m.a. komið á samstarfi við bændur um að endurvinna heyrúlluplast á Íslandi og gera úr því nýjar vörur, til að mynda girðingarstaura.

Bláskelin veitt í þriðja sinn

Bláskelin er nú veitt í þriðja sinn. Veiting verðlaunanna er í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í plastmálefnum; Úr viðjum plastsins og er þeim ætlað að vekja athygli á nýsköpun í plastmálefnum og plastlausum lausnum.

Verðlaunin voru fyrst veitt árið 2019, þegar brugghúsið Segull 67 hlaut þau fyrir bjórkippuhringi úr lífrænum efnum. Í fyrra hlaut Matarbúðin Nándin Bláskelina fyrir að stuðla að sjálfbæru matvælakerfi með hringrás fyrir glerumbúðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert