Segja Flokk fólksins beita þöggunarherferð

Í yfirlýsingunni segja Björn og Erla að eftir samtals aldarfjórðungs …
Í yfirlýsingunni segja Björn og Erla að eftir samtals aldarfjórðungs reynslu af blaðamennsku sé það sem þau hafi gengið í gegnum í síðustu viku „fordæmalaust“. Ljósmynd/Samsett

Björn Þorfinnsson og Erla Hlynsdóttir, ritstjóri og aðstoðarritstjóri DV, segja Flokk fólksins hafa beitt fyrir sig barni til þess að reyna að komast hjá því að frétt um Jakob Frímann Magnússon, oddvita flokksins í Norðausturkjördæmi, myndi birtast.

Flokkurinn hafi í tvo daga reynt að stöðva fréttaflutning með stöðugri áreitni í garð þeirra. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem þau birtu á vef DV.

Í yfirlýsingunni segja Björn og Erla að eftir samtals aldarfjórðungs reynslu af blaðamennsku sé það sem þau hafi gengið í gegnum í síðustu viku „fordæmalaust“.

„Því miður færist það sífellt í vöxt að blaðamenn verði fyrir grófu áreiti við sín störf. Við teljum því mikilvægt að stíga niður fæti og það verði öllum ljóst sem að ætla sér að beita slíkum aðferðum að þeir geta ekki gert það í skjóli skugga heldur þurfa að sætta sig við það að slíkt verði hér eftir dregið fram í dagsljósið,“ segir í yfirlýsingunni.

Tveggja sólarhringa áreitni

Miðvikudaginn 8. september birtist frétt á DV þar sem greint var frá því að Jakob Frímann Magnússon væri til skoðunar hjá lögreglunni eftir að móðir barns sakaði hann um að hafa beitt utanríkisráðuneytinu blekkingum og misnotað aðstöðu sína til þess að koma barninu úr landi án hennar samþykkis.

Í yfirlýsingunni er rakið að Erla hafi á mánudeginum hringt í Jakob Frímann þar sem hún bauð honum að svara fyrir aðkomu sína á málinu. Þess í stað hafi hann kvaðst vera upptekinn á fundi.

„Í kjölfarið hófst tveggja sólarhringa áreitni í garð okkar beggja, Björns en þó aðallega Erlu, þar sem markmiðið var að koma í veg fyrir að þessi frétt myndi nokkurn tímann birtast,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar hafi til að mynda barnið sem um ræðir verið látið hringja ítrekað í Erlu auk þess sem bréf í nafni þess hafi verið send á stjórnendur fyrirtækisins.

„Þar var okkur blaðamönnum gefið að sök að ætla að velta okkur upp úr forræðismálinu og eyðileggja líf barnsins.“

Hægt er að lesa yfirlýsinguna í heild sinni á vef DV hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert