Hafa slitið viðræðum við SÍ

Sjúkratryggingar Íslands.
Sjúkratryggingar Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar á Akureyri sem hafa verið í samningaviðræðum við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) varðandi fyrirtækjasamning, hafa nú slitið þeim viðræðum. Vilja þær ekki að viðræður þeirra standi í vegi fyrir að tveggja ára starfsreynsluákvæði talmeinafræðinga verði tekið úr rammasamningi við einstaka talmeinafræðinga.

Þetta kemur fram í tilkynningu þeirra.

Algert neyðarúrræði

„Farið var í þær viðræður þar sem samningur SÍ við einstaka talmeinafræðinga inniheldur tveggja ára starfsreynsluákvæði, sem hamlar því að tveir nýlega útskrifaðir talmeinafræðingar geti hafið störf á Akureyri.

Samningaviðræðurnar voru algert neyðarúrræði, þar sem við vildum geta boðið nýtalmeinafræðingunum áframhaldandi vinnu og í leiðinni bætt þjónustuna við núverandi skjólstæðinga og stytt biðlista á svæðinu“, segir í tilkynningu þeirra Eyrúnar Svövu Ingvadóttur, Kristínar Maríu Gísladóttur og Sonju Magnúsdóttur, sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga á Akureyri.

Erfitt fyrir einyrkja að standa í samningum

Þá kemur einnig fram að fyrirtækjasamningar innihaldi einnig ákveðnar hömlur hvað varðar starfshlutfall talmeinafræðinga með reynslu og þeirra sem eru reynslu minni. Sé því erfitt fyrir einyrkja á landsbyggðinni að standa í slíkum samningum.

„Við áttum góða fundi með fulltrúum samninganefndar SÍ en í ljós kom að forsendur fyrir viðræðunum voru ólíkar. Okkur varð ljóst, á orðum heilbrigðisráðherra í fjölmiðlum, að þessar viðræður okkar urðu að bitbeini í baráttu talmeinafræðinga, að fella út úr rammasamningi talmeinafræðinga tveggja ára starfsreynsluákvæði,“ segir einnig í tilkynningunni.

Segja þær starfsreynslu ákvæðið skjóta skökku við þar sem það skerðir atvinnufrelsi talmeinafræðinga, hefur áhrif á nýliðun stéttarinnar og brýtur gegn sjúkratryggðum á Íslandi með lengingu biðlista.

„Varðandi samningaviðræður okkar og SÍ, þá hefur þeim nú verið slitið og öllum aðilum gert það ljóst að við ætlum ekki að vera þetta bitbein og standa í vegi fyrir því að fá tveggja ára starfsreynsluákvæðið út úr rammasamningi við einstaka talmeinafræðinga. Það er því ljóst að talmeinafræðingarnir tveir, sem átti að ráða til fyrirtækisins verða ekki ráðnir og ekkert annað í stöðunni en að þeir fari að bjóða þjónustu sína án aðkomu sjúkratrygginga og skapi þannig tvöfalt heilbrigðiskerfi. Verður talmeinaþjónusta þeirra á Norðurlandi því auglýst á næstu dögum,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert