Út úr dýpsta myrkrinu

Reynir Lyngdal og Ína Ólöf Sigurðardóttir tóku fyrir missi og …
Reynir Lyngdal og Ína Ólöf Sigurðardóttir tóku fyrir missi og úrvinnslu sorgar í nýjum þáttum sem nú eru í loftinu. mbl.is/Ásdís

Missir, nýr þáttur í Sjónvarpi Símans, tekur á erfiðum málum á opinskáan hátt; dauða, missi, sorg og leiðinni til betra lífs eftir það áfall að missa ástvin. Ína Ólöf Sigurðardóttir þekkir sorgina og úrvinnsluna að eigin raun.

„Samfélagið er svo mikið að breytast og fólk opnara fyrir að tjá sig og leita sér stuðnings í sorg. Ég held að þetta sé rétti tíminn fyrir svona þátt.“

Dauðafóbía í samfélaginu

 „Hugmyndin að þáttunum kviknaði hjá mér og Evu Dís Þórðardóttur sem einnig hefur misst manninn sinn. Við höfðum kynnst í gegnum syni okkar sem æfðu saman fótbolta. Við sátum eitt kvöld á Tilverunni og fengum þessa hugmynd yfir humarsúpu og hvítvínsglasi,“ segir Ína og segir þær hafa ákveðið að láta verða að því að búa til þessa þætti.

„Okkur var bent á Reyni og við hittumst og hann hafði strax trú á þessu. Hann talaði svo við framleiðendur hjá Republik,“ segir Ína og segir að þá hafi boltinn farið að rúlla.

„Það var mjög skýrt frá byrjun hvað þættirnar ættu að fjalla um. Þeir eru um sorgarúrvinnslu; hvernig við lifum af eftir að hafa misst einhvern. Það er spurning sem er mjög erfitt að svara og hefur lítið verið fjallað um. Það er dauðafóbía í samfélaginu þótt það sé aðeins að breytast. Það sem vakti áhuga minn var að þarna var tækifæri til að gera eitthvað nýtt, að fjalla um þann sem situr eftir. Þarna er rætt við fólk sem hefur lifað af það hræðilegasta sem getur komið fyrir fólk, að missa náinn ástvin. Við lögðum mikið upp úr því að nálgast viðfangsefnið af virðingu og heilindum,“ segir Reynir.

„Þátturinn á að vera uppbyggilegur og á að sýna vonina. Við höfum svo oft séð viðtöl þar sem rætt er mest um atburðinn sjálfan og verið að hamra á þessu hræðilega, en í þessum þáttum eru það aðstandendur sem eru miðpunkturinn og þeirra vegferð, ekki sá látni. Við viljum kenna fólki inn á sorgina,“ segir Ína.

Að lifa með sorginni

„Allir sem við töluðum við upplifðu það að leiðin út úr dýpsta myrkrinu væri samtal við annað fólk,“ segir Reynir og Ína bætir við að það sé einmitt það sem Sorgarmiðstöðin bjóði upp á, stuðningshópa þar sem fólk getur rætt saman um sína sorg.

Hvernig var að fá fólk í þáttinn til að segja frá?

„Það þarf mikið traust en við útskýrðum nákvæmlega hvernig þættirnir ættu að vera og þá voru allir til,“ segir Ína, en börnin hennar tvö, fjórtán og átján ára, eru yngstu viðmælendurnir.

 „Það var áhugavert að fá þau í þættina því sorg barna er öðruvísi en sorg fullorðinna. Hún ýfist oft upp á ýmsum þroskaskeiðum og viðburðum í þeirra lífum. Það var magnað að sjá þessa tvo unglinga ræða sorgina, en þau misstu pabba sinn fimm og níu ára, og þegar þau ræða sína sorg verða þau stundum enn mjög meyr. Það sýnir líka fólki heima í stofu að sorgin fer ekkert. Hún er alltaf þarna en þú lærir að lifa með henni,“ segir Ína.

Nánar er rætt við Reyni og Ínu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert