Rúta með 20 manns innanborðs fauk út af veginum

mbl.is/Eggert

Rúta sem var á leið á Hvammstanga með 20 manns innanborðs fauk út af veginum um hádegisbil í dag og eru björgunarsveitir nú á svæðinu til þess að koma fólkinu í skjól.

„Þetta slapp ótrúlega vel. Það urðu engin stórkostleg slys á fólki,“ segir Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar í samtali við mbl.is.

Rútan var skammt frá Hvammstanga þegar hún fór út af veginum.

„Björgunarsveitin var kölluð út til þess að ferja fólkið úr rútunni í skjól á nærliggjandi hótel og vinna í því að koma rútunni aftur á veginn.“

Ekki er vitað um skemmdir á rútunni. 

Leiðindaveður er víða á norðanverðu landinu í dag. Þessi mynd …
Leiðindaveður er víða á norðanverðu landinu í dag. Þessi mynd er tekin á Möðrudalsöræfum. mbl.is/Þorgeir Baldursson

„Það er kominn vetur“

Leiðindaveður er á norðanverðu landinu í dag. Spurður hvort björgunarsveitarmenn séu í viðbragðsstöðu af þeim sökum segir Davíð:

„Fólk fylgist vel með á sínum svæðum hvernig veðurspáin er og er þar af leiðandi meira á tánum. Við erum tilbúin að bregðast við kallinu þegar það kemur. Við búum svo vel að því að vera með stóran hóp af fólki sem hægt er að kalla út.“

Davíð bendir á að spáin fyrir morgundaginn sé líka slæm. 

„Við hvetjum fólk til þess að vera meðvitað um að það er kominn vetur og það getur verið slæm færð. Það er mikilvægt að fylgjast með færð á vegum og veðurspám áður en haldið er af stað, sérstaklega hvað varðar ferðalög á milli landshluta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina