Þingmannaskólinn fjölsóttur í ár

Árgangur nýrra þingmanna árið 2016.
Árgangur nýrra þingmanna árið 2016. Golli / Kjartan Þorbergsson

Að venju verður haldið námskeið fyrir þingmenn sem eru að setjast á Alþingi í fyrsta skipti. Slík námskeið eru jafnan haldin við upphaf nýs kjörtímabils, nokkrum dögum eftir kjördag. Eftir kosningarnar 2017 kom „þingmannaskólinn“ saman 11 dögum eftir kjördag.

Á laugardaginn voru kjörnir 25 nýir þingmenn til setu á Alþingi. A.m.k. fjórir þeirra hafa áður setið á Alþingi sem aðal- eða varamenn að ógleymdum Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra, sem sat allt síðasta kjörtímabil í þingsal sem utanþingsráðherra.

Að þessu sinni verður bekkurinn í „þingmannaskólanum“ fjölmennari en eftir kosningarnar haustið 2017. Þá tóku 11 þingmenn sæti sem ekki höfðu áður setið þingfund. Eftir haustkosningarnar 2016 var bekkurinn í „þingmannskólanum“ einnig fjölmennur, en námskeiðið sóttu þá 26 nýkjörnir þingmenn. Eins og meðfylgjandi mynd sýnir munu aðeins 10 af þessum hópi sitja áfram á Alþingi eftir kosningarnar um helgina. Árið 2013 komu 28 nýliðar á þing.

Í námskeiðinu verður nýjum þingmönnum kynnt hvernig Alþingi starfar, hvaða þjónusta stendur þingmönnum til boða, starfskjör og svo framvegis. Þessar upplýsingar er að finna í ritinu Háttvirtur þingmaður, sem er handbók um þingstörfin. Ritið er einkum hugsað sem leiðbeiningarrit fyrir nýkjörna alþingismenn, svo og varaþingmenn sem setjast á Alþingi á kjörtímabilinu. Meginmarkmiðið er því að hafa á einum stað allar helstu upplýsingar sem geta komið nýjum alþingismönnum að gagni og létt þeim störfin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert