Segja Pawel fara með rangt mál

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar.
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar. mbl.is/Eggert

Samtök iðnaðarins (SI) segja að Pawel Bartoszek, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, fari ekki með rétt mál á facebooksíðu sinni þar sem hann segir stefna í metár í byggingu nýrra íbúða í Reykjavík.

„Í fyrra voru teknar í notkun 1.572 nýjar íbúðir í Reykjavík. Það var met. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs voru þær orðnar 1.422. Það stefnir því í annað met. Það er verið að byggja tvö þúsund íbúðir í þessum töluðu orðum,“ skrifar Pawel á síðunni.

SI segja að ný íbúatalning samtakanna styðji alls ekki þessa fullyrðingu. Samkvæmt henni eru í Reykjavík nú tæplega 1.900 íbúðir í byggingu og nemur samdrátturinn á milli ára 24%, að því er segir í tilkynningu frá SI.

Bent er á að á sama tíma í fyrra hafi um 2.500 íbúðir verið í byggingu í Reykjavík sem þýði að nú séu 600 færri íbúðir í byggingu.

„Ef horft er til ársins 2019 þá voru á þessum tíma 2.735 íbúðir í byggingu í Reykjavík og því mælist samdrátturinn frá þeim tíma 31%. Það verður því að teljast langt frá því að vera metár líkt og formaðurinn fullyrðir. Rétt er að benda á að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur áætlað að það þurfi 3.000-3.500 nýjar íbúðir á markaðinn árlega næstu árin en ekki um 2.000 eins og formaðurinn heldur fram,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert