Tugmilljóna dróni fór í döðlur

Ljósmyndarinn Arnaldur Halldórsson veit fátt skemmtilegra en að ferðast um …
Ljósmyndarinn Arnaldur Halldórsson veit fátt skemmtilegra en að ferðast um landið með kvikmyndateymi. Hér sést hann á settinu á Vikings.

Það er vel tekið á móti blaðamanni í ljósmyndastúdíói Arnaldar Halldórssonar ljósmyndara niðri við sundin blá. Hann drífur fram rjúkandi heitt kaffi og snúða og við komum okkur vel fyrir. Arnaldur hefur verið með myndavélina um hálsinn síðan hann man eftir sér. Hann hefur komið víða við á sínum ferli; í auglýsingum, tísku, kvikmyndum og á Morgunblaðinu, svo eitthvað sé nefnt. Í dag skiptist vinna hans á milli þess að vinna hefðbundin ljósmyndastörf fyrir fyrirtæki og stofnanir og að þeysast um landið með stórstjörnum.

Oft er myndað við erfiðar aðstæður eins og hér má …
Oft er myndað við erfiðar aðstæður eins og hér má sjá, inni í íshelli. Arnaldur segir veðrið stundum gera þeim erfitt fyrir í tökum.

Á settinu á Game of Thrones

„Í kringum árið 2007 fór ég að vinna fyrir íslensku framleiðslufyrirtækin eins og Frost Film, Pegasus og True North. Það vantaði oft það sem kallast „location scout“, eða manneskju sem finnur tökustaði fyrir verkefni, bíómyndir, seríur og ljósmyndatökur. Þau vildu gjarnan ráða einhvern sem hefði bakgrunn í ljósmyndun í þessa vinnu. Ég fer þá á stjá og finn flotta staði sem henta hverju verkefni. Ég tek myndir sem sendar eru á viðskiptavini og út frá því velja þeir staðina sem þeir vilja nota þegar þeir koma til landsins. Þannig kynntist ég bransanum og fólkinu í kvikmyndaheiminum hér. Svo þarf oft ljósmyndara á setti og ég hef oft verið í því líka,“ segir Arnaldur og segist hafa verið á mörgum settum frægra þátta og kvikmynda.

Þegar mynda á sjónvarpsþætti eða kvikmynd koma oft hingað mörg …
Þegar mynda á sjónvarpsþætti eða kvikmynd koma oft hingað mörg hundruð manns, tæki tól og annar búnaður.

„Ég var á settinu á Game of Thrones og mörgum stórum Hollywood-myndum sem hafa verið myndaðar hér á landi, eins og Prometheus og Oblivion með Tom Cruise. Eins hef ég verið með í tökum á seríum fyrir Netflix, til dæmis Black Mirror og Vikings. Það er rosa gaman að vera hluti af þessum hópi og fara saman út á land í einhverjar vikur. Við vöknum snemma á morgnana og það er oft farið út í alls konar veðrum með fullt af tækjum og græjum og drónum,“ segir Arnaldur og segist hafa hitt marga stórstjörnuna en man sjaldnast nöfn þeirra eða þekkir þær ekki.

Eitt sinn fór leikstjóri niður um vök og þurfti Arnaldur …
Eitt sinn fór leikstjóri niður um vök og þurfti Arnaldur og félagar hans að draga hann upp. Ljósmyndir/Arnaldur

„Ég er kannski ekki í beinum samskiptum við stórstjörnur; maður er meira til hliðar að vinna vinnuna sína. Íslendingar verða ekkert mjög „starstruck“. Auðvitað var stundum setið á kvöldin á barnum og spjallað saman. En á daginn er fólk í karakter að vinna vinnuna sína.“

Leikstjórinn niður um vök

Vinna Arnaldar í þessum kvikmyndabransa er fjölbreytt; hann sér um tökusvæðið, að mynda stillur úr kvikmyndum, taka myndir bak við tjöldin og aðstoða kvikmyndagerðarfólk eða heimsfræga ljósmyndara.

Arnaldur nýtur sín vel að vinna úti í íslenskri náttúru.
Arnaldur nýtur sín vel að vinna úti í íslenskri náttúru.

„Mér finnst mjög gaman að taka myndir á bak við tjöldin, það er eiginlega skemmtilegast,“ segir hann.

„Þetta hefur þróast þannig að stundum er ég ekkert að mynda heldur ráðinn sem „location manager“ og hef þá yfirumsjón með tökustöðunum; tala við landeigendur, fæ leyfi og vinn með teymi sem sér um praktíska hluti eins og að smíða brýr, setja upp vinnuljós eða farga rusli. Þá er maður fyrstur út á morgnana og síðastur heim á kvöldin. Þetta er tarnavinna.“

Hefur eitthvað farið úrskeiðis á setti, eða hefurðu klúðrað einhverju?

„Nei, ekki beint. Ég myndi segja að veðrið væri það helsta sem getur gert okkur lífið leitt. Það kemur kannski brjálað veður og tjöld og vagnar fjúka á hliðina. Það getur verið vesen,“ segir hann.

„Það hefur enginn dáið, minnir mig,“ segir Arnaldur og hlær.

Blaðamaður spyr í bríaríi:

Hefur enginn dottið niður um vök?

„Jú! Einu sinni,“ segir Arnaldur og skellihlær.

Það fór vel á með Arnaldi og Jackie Chan sem …
Það fór vel á með Arnaldi og Jackie Chan sem var hér við tökur á kvikmyndinni Kung Fu Yoga.

„Það er vinsælt að koma hingað og mynda bílaauglýsingar. Við vorum að mynda auglýsingu fyrir Land Rover Defender og vorum á lóni við Höfn. Ísinn hafði eitthvað þiðnað en leikstjórinn gekk út á og segir: „Sjáið, þetta er alveg traust!“ Svo fór hann niður um ísinn, með símann sinn, passann og allt. Við drógum hann svo upp og færðum hann inn í bíl. Hann var alveg frosinn.“

Arnaldur hefur aðstoðað Annie Leibovitz sem er heimsþekktur ljósmyndari og …
Arnaldur hefur aðstoðað Annie Leibovitz sem er heimsþekktur ljósmyndari og myndar oft fyrir stór tískutímarit.

Annað sem rifjast upp hjá Arnaldi eru atvik þegar drónar hafa skemmst eða týnst.

„Það var við tökur á Game of Thrones að einn dróninn, sem kostaði ábyggilega tugi milljóna, stakk af og flaug beint inn í klettavegg. Ég horfði á þetta gerast. Hann fór í döðlur,“ segir Arnaldur og segist sjálfur hafa tapað nokkrum drónum.

„Á tímabili átti ég margar fjarstýringar en engan dróna,“ segir hann og hlær.

Á gígantískum skala

Hvað er þetta stór hluti af þínu starfi, að fara á tökustaði úti á landi?

„Þótt ég sé hér með stúdíó er ég minnst að mynda í stúdíói. Flest verkefnin sem ég er að vinna að eru úti í bæ eða úti á landi. Ég mynda mikið fundi, ráðstefnur og ýmsar uppákomur fyrir fyrirtæki og stofnanir. Á þessum litla markaði þarf maður að vera í öllu. Grenjandi börn og bílar og allt þar á milli,“ segir hann.

Arnaldur segist hafa haft alveg nóg að gera á meðan kórónuveiran geisaði því á meðan allt var lokað erlendis í kvikmyndaframleiðslu var oft hægt að mynda hér á landi.

„Ég var til dæmis í hundrað daga í tökum úti á landi fyrir raunveruleikaþætti sem heita The Challenge, en þeir eru eins konar bland af Survivor og Love Island. Þetta var risaverkefni. Það voru smíðaðar leikmyndir og þrautir á gígantískum skala út um allt land. Það unnu um tvö hundruð manns við þetta, um helmingur þeirra Íslendingar. Við höfðum ekkert heyrt talað um þessa seríu áður, en það hafa verið gerðar 37 seríur síðan 1998,“ segir Arnaldur, en hann hefur séð mikið af Íslandi í ferðum sínum og oft komið á staði sem eru utan alfaraleiða, enda gjarnan farið með þyrlum og lent á afskekktum stöðum.

Hvað stendur upp úr af þessum kvikmyndaverkefnum?

„Game of Thrones var mjög skemmtilegt og eins verkefni með Jackie Chan. Þá vorum við í tvær vikur úti á landi í janúar og fengum sól og blíðu alla daga. Þá var verið að taka mynd sem heitir Kung Fu Yoga sem er stór bíómynd. Jackie er mjög fínn og hress, gekk á milli manna og bauð upp á mjög sérstakt kínverskt sælgæti.“ 

Ítarlegt viðtal er við Arnald í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert