Óvenjulegir skjálftar merki um líf

Frá Langavatni í Mýrasýslu, sem markar austurmörk skjálftasvæðisins.
Frá Langavatni í Mýrasýslu, sem markar austurmörk skjálftasvæðisins. Ljósmynd/TKÞ

Hinn 23. maí á þessu ári reið jarðskjálfti yfir innanvert Snæfellsnes, skammt austur af Grjótárvatni. Hann vakti ekki mikla athygli, þessi skjálfti, enda aðeins einn af rúmlega tvö þúsund sem urðu á landinu og undan ströndum þess í maímánuði. Þá var hann heldur ekki nema 1,8 að stærð.

En síðan þá hafa fleiri en tuttugu skjálftar riðið yfir sama svæði. Þannig hafa, á undanförnum rúmum fjórum mánuðum, mælst þar fleiri skjálftar en í að minnsta kosti tólf ár þar á undan.

Svæðið markast nokkurn veginn af Álftaskörðum í suðri, Grjótárvatni í vestri, Háleiksvatni í norðri og Geldingafjöllum í austri. Þetta fjalllendi liggur svo norður af Hraundal á Mýrum í Borgarbyggð, þar sem fyrr á öldum var ein helsta rétt landsins, og vestur af Hítardal, þar sem í júlí 2018 féll ein stærsta skriða sem fallið hefur á sögulegum tíma á Íslandi.

Hvað veldur þessum skjálftum?

„Það veit enginn. Það er engin skýring á því. En þetta er virkt eldstöðvakerfi þótt það hafi ekki látið á sér kræla í þúsund ár,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur. „Þessir skjálftar eru merki um lífsmark en maður veit ekki hvert framhaldið verður. Þetta er allavega nokkuð sem er þess virði að taka eftir, að þetta tekur við sér. Það er ástæða til þess að fylgjast með framvindu þessa máls. Í því er ekki fólgin nein spá um að það muni gjósa en það er vissulega ein af sviðsmyndunum,“ segir Páll.

Eldstöðvakerfið sem um ræðir nefnist Ljósufjallakerfið. Norðvesturendi kerfisins er sunnan við Stykkishólm en Ljósufjöll draga nafn sitt af ljósum súrum bergtegundum í fjöllunum. Miðja eldstöðvakerfisins er talin vera í sjálfum Ljósufjöllum.

Spurður hvort virknin í Ljósufjallabeltinu tengist á einhvern hátt eldgosinu á Rekjanesskaga segir Páll mjög ólíklegt að svo sé. Kerfin séu ekki tengd.

Áður en gjósa fór í Geldingadölum í mars á þessu ári mældust hundruð skjálfta. Þá mældist einnig landris við fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaga og var eldgosið viðburður í ákveðinni framvindu á Reykjanesskaga.

Í Ljósufjallakerfinu eru ekki til neinar mælingar um að kvika sé að færast nær yfirborðinu og engar mælingar til um landris á þessu svæði. Páll segir kerfið vera komið á það stig að menn gætu farið að huga að því að gera nákvæmari mælingar, en á þessu stigi málsins liggi ekki nein gögn fyrir.

Engar spár um eldgos

„Þetta er á svona aðgæslustigi, það eru skjálftar þarna sem hafa ekki verið þarna áður. Það er eftirtektarvert því þetta er þekkt eldgosakerfi, þótt það hafi ekki gosið þarna síðan á landnámsöld,“ segir Páll. Landnámsöld er tímabil við upphaf Íslandssögunnar og er hún sögð hefjast með landnámi Ingólfs Arnarsonar í Reykjavík árið 870 eða 874 og enda með stofnun Alþingis á Þingvöllum árið 930.

Gosið sem Páll vísar í varð snemma á landnámsöld, þótt ekki hafi tekist að greina hvaða ár það varð. Að öllum líkindum var það í Rauðhálsum. Tekist hefur að skilgreina um 23 eldgos á nútíma í sjálfu Ljósafjallakerfinu. Fjöllin hlóðust upp með mikilli og fjölbreytilegri eldvirkni allt frá seinnihluta ísaldar. Eldvirkni á sögulegum tímum hefur verið bundin við svæðið austan Ljósufjalla, nánar tiltekið við Hítardal og Hnappadal. Skjálftavirknin undanfarna fjóra mánuði hefur einmitt verið á því svæði.

Páll segir ekkert víst að eldgos í Ljósufjallakerfinu þurfi að verða svipað og eldgosið í Geldingadölum. Ef gos yrði á þessum stað yrði það ekki stór atburður.

„Öll gos á þessu svæði hafa verið lítil. Öll hraunin þarna eru litlir bleðlar. Það hefur gosið í flestum dölunum þarna, þar leitar kvikan út, og þau eru öll lítil,“ segir Páll. Undir Ljósufjöllum virðist ekki vera neitt stórt kvikuhólf sem menn hafa greint.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert