Tillögurnar stærri og peningarnir meiri

Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnisstjóri Hverfisins míns.
Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnisstjóri Hverfisins míns. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Árleg íbúakosning Reykjavíkurborgar, Hverfið mitt, stendur nú sem hæst og verður hægt að kjósa um tillögur á vef borgarinnar fram á hádegi á fimmtudag.

Þar gefst Reykvíkingum, 15 ára og eldri, kostur á að kjósa um tillögur annarra íbúa að úrbótum í sínu hverfi.

Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnisstjóri Hverfisins míns, segir við mbl.is að aldrei hafi fleiri tekið þátt í verkefninu.

Þar að auki er nú mun meira fjármagn í spilinu enda hefur verkefninu verið breytt þannig að kosning fari fram á tveggja ára fresti, til þess að geta betur staðið að framkvæmd þeirra hugmynda sem hljóta brautargengi.

Ærslabelgir eru vinsælir hjá ungviðinu.
Ærslabelgir eru vinsælir hjá ungviðinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Metnaðarfyllri verkefni

„Þetta er klárlega orðið þannig hjá mörgum held ég,“ segir Eiríkur við mbl.is, spurður að því hvort Hverfið mitt sé orðið að árvissum viðburði í dagatali borgarbúa, eins og að skila skattframtali eða fara með bílinn í skoðun.

Eiríkur segir að aldrei hafi fleiri tillögur borist en í ár og að þær séu stærri og metnaðarfyllri en nokkru sinni fyrr.

„Þegar við erum með eins mikið af peningum eins og núna erum við að sjá mikið af stórum og mjög flottum verkefnum, sem íbúar hverfanna brenna fyrir að verði að veruleika,“ segir Eiríkur og bætir við að fólk sé líklegra að taka sig til og kjósa þegar slíkar tillögur eru í kosningu.  

Áður var kannski meira um smærri hugmyndir og líka ýmis viðhaldsverkefni sem er ekki lengur kosið um, en núna erum við með stærri verkefni sem geta haft áhrif á hverfin til hins betra til langframa, verkefni sem jafnvel geta breytt ásýnd hverfanna og götumynd þeirra.“ 

Íbúar allra hverfa vilja ærslabelg

Tillögurnar í ár eru af ýmsum toga, eins og Eiríkur útskýrir, allt frá hjólagrindum til útigrilla og ærslabelgja. Raunar má finna tillögur um uppsetningu ærslabelgja í öllum hverfum Reykjavíkur, á vef verkefnisins.

Eiríkur segir þó eitt standa upp úr.

„Það er klárt að borgarbúar vilji sjá grænni Reykjavík. Það komu til okkar margar tillögur um gróðursetningu trjáa á ýmsum stöðum um alla borg, sem við tökum fagnandi,“ segir Eiríkur og bætir við að slík verkefni séu einnig ódýr miðað við mörg önnur sem tillögur eru um.

Þar að auki er mikið um tillögur um eins konar almannarými, þar sem fólk getur komið saman og notið góðra stunda í „hjarta hverfisins“ eins og Eiríkur orðar það.

Þessi körfuboltavöllur í Breiðholti er afrakstur Hverfisins míns.
Þessi körfuboltavöllur í Breiðholti er afrakstur Hverfisins míns. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Alls 800 verkefni komist til framkvæmda

Frá því að fyrst var blásið til íbúakosningarinnar árið 2012 hafa alls tæplega 800 verkefni komið til framkvæmda víðs vegar um borgina.

Eiríkur segir að það sé teljandi á fingrum annarrar handar að verkefni í Hverfinu mínu hafi ekki komið til framkvæmda og séu enn í ferli og enn fátíðara sé að þau séu enn í framkvæmdum.  

Spurður að því hvenær tillögurnar, sem nú er kosið um, komist til framkvæmda segir Eiríkur að það verði líklega strax næsta sumar. Hann segir að vinsældir verkefnisins hafi smitast til nærliggjandi sveitarfélaga.

Eru aðrir farnir að herma?

„Já, og við fögnum því bara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert