Dregur úr spennu á fasteignamarkaði

Vesturbærinn í Reykjavík.
Vesturbærinn í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Eftir mikla spennu undanfarin misseri er farið að draga úr umsvifum á fasteignamarkaði sem endurspeglast í fækkun kaupsamninga og minni veltu.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu hagdeildar HMS um húsnæðismarkaðinn.

Vextir á íbúðalánum hafa hækkað frá því í vor í kjölfar vaxtahækkana Seðlabankans. Auk þeirra hefur bankinn beitt tveimur öðrum stjórntækjum sem miða sérstaklega að því að draga úr eftirspurn eftir húsnæði og hægja á skuldaaukningu heimilanna, þ.e. lækkun á hámarksveðhlutfalli íbúðalána og reglur um hámarksgreiðslubyrði, að því er kemur fram í tilkynningu.

Minnkandi umsvif á íbúðamarkaði má þó líklegast skýra að miklu leyti með litlu framboði af íbúðum til sölu. Einnig er líklegt að mjög miklar verðhækkanir séu farnar að hafa áhrif.

Samdráttur á höfuðborgarsvæðinu

Einkum hefur dregið úr fjölda kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu en þeir voru innan við helming af því sem var í mars, þegar metið var slegið með 1.107 útgefnum kaupsamningum. Þó eru ekki mörg ár þar sem kaupsamningar hafa verið fleiri í ágúst. Þrátt fyrir að einnig hafi verulega dregið úr fjölda kaupsamninga annars staðar á landinu, þá er um að ræða næstumsvifamesta ágústmánuð í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Ekki er ólíklegt að metið verði slegið í ágúst annars staðar á landsbyggðinni þegar allir kaupsamningar liggja fyrir.

Hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði heldur áfram að lækka, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Þar seldust 34,4% íbúða í fjölbýli yfir ásettu verði miðað við þriggja mánaða hlaupandi meðaltal í ágúst en í júní var hlutfallið 37,5%. Fyrir sérbýlin hefur hlutfallið lækkað úr 46,7% í 39,7% yfir sama tímabil. Hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði hefur einnig farið lækkandi í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins en hefur haldið áfram að hækka annars staðar á landsbyggðinni.

mbl.is