Hvorugur vildi endurnýja samninginn

Eyþór Máni Stefánsson, með hjól frá Donkey Republic, ásamt Kötlu …
Eyþór Máni Stefánsson, með hjól frá Donkey Republic, ásamt Kötlu Maríu Unnþórsdóttur og Pétri Magnúsi Péturssyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eyþór Máni Stefánsson, framkvæmdastjóri Framúrskarandi, sem sá um rekstur deilihjólaleigu Donkey Republic hér á landi, segir ástæðu þess að hjólin séu horfin úr Reykjavík vera að ekki hafi verið áhugi fyrir því að endunýja samninginn við borgina um hjólaleiguna. 

„Það er einfaldlega þannig að þjónustusamningurinn við Reykjavíkurborg er að renna út og hvorugur aðili hafði áhuga á að endurnýja því báðir eru sáttir við núverandi framboð af samgöngum í borginni,“ segir hann.

Eyþór er einnig framkvæmdastjóri rafskútuleigunnar Hopp og segir að það verkefni gangi mun betur og því hafi verið ákveðið að einblína á það. 

„Borgin hefur verið að styrkja þetta í tvö ár og hafði ekki áhuga á að styrkja eitthvað sem er ekki að breyta mjög miklu fyrir samgönguflóruna,“ segir Eyþór. 

Faraldurinn hjálpaði ekki

„Þetta var frábært verkefni. Við vorum með nokkur þúsund notendur og tugir þúsunda ferða. En þetta er auðvitað túristamiðaður bisness og ég held að Covid hafi ekki verið að hjálpa til við að halda rekstrinum á lífi.“ 

Eyþór segir deilihjólaleiguna hafa verið mikilvægt verkefni og að það hafi örugglega hvatt aðra aðila til þess að fara í þennan bransa. „Það gerði sér enginn grein fyrir því að samgöngur gætu verið einhvern bisness í Reykjavík fyrir utan bara bílana.“

Heimildir mbl.is herma að einhver af hjólum Donkey Republic séu á leið til Ísafjarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert