Hópslagsmál í Hagkaup í Garðabæ

Tilkynnt var um hópslagsmál fyrir utan Hagkaup í Garðabæ í …
Tilkynnt var um hópslagsmál fyrir utan Hagkaup í Garðabæ í nótt. Málið er í rannsókn. mbl.is/Hjörtur

Mikið annríki var hjá lögreglu í gærkvöldi og í nótt vegna ölvunar, slagsmála og heimilisofbeldismála og var mikið að gera hjá öllum stöðvum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í dagbók lögreglu er þannig greint frá átta slagsmálum, þar af hópslagsmálum og fjórum málum sem flokkast undir heimilisofbeldi.

Tilkynnt var um þrenn slagsmál í miðbænum í nótt, en meðal annars var ráðist á öryggisvörð. Þá var tilkynnt fjórða málið þar sem sparkað var í liggjandi mann í miðbænum, en gerendur hlupu á brott. Sá sem fyrir árásinni varð var fluttur á slysadeild.

Þá fékk lögreglan tilkynningu um árás þar sem maður hafði hlotið áverka á höfði og var meðvitundarlaus. Árásarmaður hafði flúið af vettvangi þegar lögreglan kom á staðinn. Jafnframt fékk lögregla tilkynningu um hópslagsmál í Hagkaup í Garðabæ og er málið í rannsókn.

Með kylfu og piparúða

Í Kópavogi barst tilkynning um slagsmál þar sem maður var vopnaður kylfu og piparúða og reyndi hann að stinga lögreglu af á fæti en var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Sem fyrr segir var tilkynnt um fjögur mál sem flokkast sem heimilisofbeldi, en í einu málinu voru tilkynnt mikil læti frá íbúð og þegar lögregla kom á vettvang hafði íbúi farið frá íbúðinni kviknakinn. Telur lögreglan það jafnframt vera heimilisofbeldismál.

mbl.is