Ríkisstjórnin standi frammi fyrir þremur möguleikum

Þórólfur Guðnason.
Þórólfur Guðnason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir hefur skilað minnisblaði um stöðu Covid-far­ald­urs­ins til Svandís­ar Svavars­dótt­ur heil­brigðisráðherra.

Hann segir í samtali við mbl.is að stjórnvöld standi frammi fyrir þremur möguleikum í stöðunni núna hvað varðar sóttvarnir, halda takmörkunum óbreyttum, aflétta í skrefum áfram eins og gert hefur verið eða að aflétta öllum takmörkunum.

Það er svo sem ekkert eitt sem ég legg til umfram annað en ég svona velti upp kostum og ókostum við þessar aðgerðir útfrá mínu sjónarhorni,“ segir Þórólfur.

„Ekki eins og allir aðrir hafi hætt öllu og allt gangi vel“

Þórólfur segir að í þessu minnisblaði fari hann yfir stöðuna og þróunina undanfarið, bæði hér á landi sem og í nálægum löndum. Hann segir að horfa þurfi til reynslu annarra landa sem og okkar eigin á því að aflétta allar takmarkanir en afléttingarnar í lok júnímánaðar á þessu ári setji strik þar í reikninginn.

„Þannig þetta er ekki eins og allir aðrir hafi hætt öllu og allt gangi vel og við séum þau einu sem erum með takmarkanir í gangi, menn þurfa aðeins að tala um þetta á raunhæfan máta finnst mér.

„Við þurfum náttúrulega líka að  horfa til okkar eigin reynslu, ég lagði það til í lok júní og ríkisstjórnin líka að við myndum aflétta öllu og það var gert. Það er ekki eins og við viljum ekki aflétta öllu, við gerðum það og ég hef áður lagt það til og þá fengum við þessa stærstu bylgju sem við höfum fengið og erum ennþá að eiga við hana.“

„Ég held að við þurfum að horfa á okkar reynslu líka og svo þurfum við náttúrulega líka að sjá hvað aðrar þjóðir eru að gera og hver þeirra reynsla er.“

Metur reynslu norðurlandanna

„Nú ef við horfum á hin norðurlöndin þá er lengst síðan að danir afléttu eða rúmlega mánuður síðan, og það hefur ekki mikið verið að gerast þar en í lok síðustu viku var hægfara aukning á fjölda tilfella og þeir voru líka komnir með fleiri innlagnir á spítala, þannig maður veit ekki hvort að þessi þróun heldur þar áfram.“

Þá bendir hann á að Bretar voru með miklar afléttingar í sumar og að það hafi í kjölfarið orðið töluverður uppgangur í faraldrinum þar, og það er töluverður uppgangur í faraldrinum þar, bæði í fjölda tilfella, fjölda sem leggst inn á spítala og fjölda dauðsfalla.

Horfiru mest til stöðunnar á spítalanum hvað varðar afléttingar?

„Já mér finnst það vera stóra spurningin og það er það sem við höfum talað um áður, þegar við fengum bylgjuna núna í sumar eftir afléttingarnar þá fengum við mjög margar innlagnir á spítalann sem að setti hann nánast á neyðarstig og það réði alveg úrslitum um það að við settum aftur á takmarkanir og ég held að það verði þannig áfram að við þurfum að horfa á það.“

„Ég held að menn tala dálítið þannig að út af útbreiddum bólusetningum, sem að svo sannarlega eru að gera sitt, að þá sé engin hætta á að við fáum hér faraldur,“ segir Þórólfur.

„Við fengum faraldur og vorum vel bólusett í sumar, sjötíu prósent landsmanna voru bólusett í sumar þegar við afléttum öllu og við fengum samst sem áður þessa bylgju þannig við þurfum að horfa á alla þessa reynslu og reyna að læra af henni.“

mbl.is